Tólf Danir til viðbótar prófaðir

Starfsmenn þrífa neðanjarðarlestir í Íran vegna kórónuveirunnar.
Starfsmenn þrífa neðanjarðarlestir í Íran vegna kórónuveirunnar. AFP

Tólf einstaklingar til viðbótar við Danann sem greindist með kórónuveiruna eftir að hann kom heim frá Norður-Ítalíu hafa verið prófaðir. Niðurstaða úr þremur slíkum prófum liggur fyrir og reynast þeir ekki með veiruna. Á meðan beðið er eftir niðurstöðu hjá hinum níu verða þeir í einangrun á sjúkrahúsi í Árósum.  

Daninn greindist með kórónuveiruna eftir að hann kom heim úr skíðaferð í Norður-Ítalíu og er í heimasóttkví. Eiginkona hans og sonur eru það einnig í varúðarskyni en þau eru ekki með veiruna. Fjölskyldan verður í daglegu sambandi við sjúkrahúsið á meðan einangrunin stendur yfir. 

Maðurinn er starfsmaður á sjónvarpsstöðinni TV2. Í dag verða samstarfsmenn hans prófaðir til að finna út hvort þeir séu smitaðir af veirunni en hann sneri aftur til vinnu eftir heimkomu. 

Fjölskyldan kom heim úr skíðafríinu á mánudaginn, 24. febrúar. Hann kenndi sér meins, var með hita og hósta, og leitaði læknisaðstoðar. 

Flestöll smit sem hafa greinst í Evrópu eru rakin til Ítalíu. Þar fjölgar smituðum einstaklingum ört og eru þeir nú orðnir 400 talsins síðasta sólarhring. Þetta er í fyrsta skipti sem veiran breiðist svona hratt út utan Kína. 

Alls hafa 80.000 manns í um 40 löndum greinst með kórónuveiruna. Alls hafa um 2.700 manns látist af völdum hennar, flestir í Kína. 

Frétt DR  

Frétt BBC

mbl.is

Kórónuveiran

8. apríl 2020 kl. 13:00
1616
hafa
smitast
633
hafa
náð sér
39
liggja á
spítala
6
eru
látnir