Biden vann öruggan sigur í Suður-Karólínu

Joe Biden þakkar hér stuðningsmönnum sínum í Suður-Karólínu fyrir að …
Joe Biden þakkar hér stuðningsmönnum sínum í Suður-Karólínu fyrir að veita sér afgerandi sigur í forvali demókrata í ríkinu. AFP

Joe Biden hlaut 48,4% atkvæða í forvali Demókrataflokksins í Suður-Karólínu í gær. Niðurstaðan þykir til marks um að vonir hans um að veita Bernie Sanders harða keppni um útnefningu demókrata í forsetakosningunum vestanhafs séu að glæðast. Sanders hlaut næstflest atkvæði, eða 19,9%.

Þeir tveir deila með sér öllum þeim kjörmönnum sem frá Suður-Karólínu koma á flokksþing demókrata, en til þess að fá kjörmenn frá ríkinu þurftu frambjóðendur að njóta meira en 15% stuðnings í forvalinu. Það gerði enginn annar frambjóðandi.

Milljarðamæringurinn Tom Steyer var þriðji í kjörinu með 11,3% atkvæða, en hann hyggst nú draga sig alfarið úr baráttunni um útnefningu demókrata. Pete Buttigieg og Elizabeth Warren voru næst, en bæði fengu þau innan við tíu prósent atkvæða demókrata í Suður-Karólínu, rúm átta og Warren rúm 7. Amy Klobuchar kom síðan næst með 3,1% atkvæða.

Biden, sem er 77 ára gamall og að bjóða sig fram til forseta í þriðja sinn, hefur aldrei áður verið hlutskarpastur í forvali nokkurs ríkis. Hann var sigurreifur í ræðu sem hann flutti stuðningsmönnum sínum í gærkvöldi og sagði að fyrir einungis nokkrum dögum hefðu fjölmiðlar og álitsgjafar talið að framboð hans væri að lognast út af.

„Nú, þökk sé ykkur öllum – hjarta Demókrataflokksins – höfum við sigrað, gjörsigrað,“ sagði Biden og bætti við að þessi öruggi sigur sýndi að hann væri sá frambjóðandi demókrata sem best væri til þess fallinn að takast á við Donald Trump Bandaríkjaforseta í komandi kosningum, hófsamir kjósendur Suður-Karólínu hefðu hafnað „byltingunni“ sem Bernie Sanders boðaði.

Bernie Sanders á kosningafundi í Virginíu-ríki í gær. Hann fékk …
Bernie Sanders á kosningafundi í Virginíu-ríki í gær. Hann fékk tæp 20% atkvæða í Suður-Karólínu. AFP

Í fréttaskýringu AFP um niðurstöðuna segir að úrslitin í Suður-Karólínu séu áhyggjuefni fyrir Bernie Sanders, sem hafði reynt að ná til svartra kjósenda í ríkinu. Samkvæmt útgönguspám greiddu einungis 15% svartra kjósenda sem tóku þátt í forvalinu Sanders atkvæði sitt en Biden naut á móti stuðnings um 60% svartra.

Biden fer því á flugi inn í komandi daga, en á þriðjudaginn er svokallaður „ofur-þriðjudagur“ en þá fer fram forval í fjórtán ríkjum Bandaríkjanna samtímis.

Frétt BBC

Frétt New York Times

mbl.is