Biden lofar kvenkyns varaforsetaefni

Biden og Sanders heilsuðust með því að láta olnboga sína …
Biden og Sanders heilsuðust með því að láta olnboga sína snertast til að forðast kórónuveirusmit. AFP

Níu mánuðir eru liðnir síðan 20 keppinautar um að verða forsetaefni Demókrataflokksins komu saman til fyrstu kappræðna, en nú standa aðeins tveir eftir: Bernie Sanders og Joe Biden.

Sanders og Biden háðu kappræður sín á milli á CNN í gærkvöldi. Gætt var að því að tveir metrar væru á milli kappanna, en þeir eru báðir í áhættuhópi vegna kórónuveirunnar sökum aldurs. 

Á meðal umræðupunkta voru einmitt aðgerðir þeirra til þess að tryggja að þeir sýktust ekki sjálfir af kórónuveirunni, en hún setur ákveðið strik í kosningabaráttureikninginn og hafa Sanders og Biden báðir til að mynda gripið til þess að halda samstöðufundi í gegnum netið.

Sanders sótti hart að Biden

Athygli vakti að Sanders sótti hart að andstæðingi sínum í kappræðunum, sem hann forðaðist í undanfara kosninganna 2016 þegar hann atti kappi við og tapaði fyrir Hillary Clinton í forvali demókrata. Þykir þetta bera þess merki að Sanders, sem hafði markverða forystu í upphafi forvalstímabilsins, ætli sér ekki að tapa þegjandi og hljóðalaust fyrir Biden, sem á þessari stundu hefur á hann forskot.

Þá þótti loforð Bidens þess efnis að hann skyldi velja kvenkyns varaforsetaefni, yrði hann fyrir valinu sem forsetaframbjóðandi flokksins, athyglisvert. Sanders virtist ekki vilja skuldbinda sig í þeim efnum en fullyrti þó að hann væri líklegur til að gera slíkt hið sama.

Umfjöllun BBC

Umfjöllun CNN

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert