Facebook sakað um áralangar blekkingar í markaðsstarfi

Facebook er sakað um að hafa vísvitandi blásið upp tölur …
Facebook er sakað um að hafa vísvitandi blásið upp tölur í því skyni að auka tekjur sinar. AFP

Starfsmenn hjá samfélagsmiðlinum Facebook eru sakaðir um að hafa „vitað í mörg ár“ að mælikvarði, sem á að sýna hversu margir notendur sjá tiltekna auglýsingu á miðlinum, hafi verið rangur en þrátt fyrir það hafi þeir hvorki upplýst auglýsendur um gallann né lagað hann. Þetta kemur fram í dómsskjólum úr hópmálsókn á hendur fyrirtækinu

Finincial Times greinir frá.

Málið var höfðað í Norður-Kaliforníu-ríki í Bandaríkjunum árið 2018 af eiganda lítils fyrirtækis. Hann heldur því fram að starfsmenn Facebook hafi vitað það að svokallaður möguleikamælikvarði (e. potential reach metric), sem notaður er til að upplýsa auglýsendur um hvað þeir gætu mögulega náð til margra notenda, hafi verið „uppblásinn og villandi.“

Sheryl Sandberg, framkvæmdastjóri rekstrar hjá Facebook, og David Wehner, fjármálastjóri Facebook, eru sérstaklega nafngreind í dómsskjölunum sem innihalda samskipti milli þeirra. Það er þó búið að strika yfir mikið af samskiptunum á þeim grundvelli að þar sé á ferðinni vandmeðfarið markaðsefni.

Falsaðgangar notaðir til að hækka möguleikamælikvarðann

Í málinu er því haldið fram að Facebook hafi notað möguleikamælikvarðann til að sýna auglýsendum hversu margra notenda þeir gætu náð til með auglýsingu. Það er fullyrt að mælikvarðinn sýni raunverulega þann heildarfjölda aðganga sem gætu séð auglýsinguna – í þeirri heildartölu eru falsaðgangar og svokallaðir tvöfaldir aðgangar (e. Duplicated accounts).

Þá eru dæmi um að möguleikamælikvarðinn fyrir ákveðin ríki og borgir hafi sýnt hærri tölu en íbúafjöldann á þeim stöðum.

„Sinnuleysi Facebook að fjarlægja ekki falska- og tvöfalda aðganga úr möguleikamælikvarðanum gerir hann villandi. Þann 3. mars hafði Facebook ekki enn gripið til aðgerða,“ segir í skjölunum.

5,4 milljarðar falsaðgangar fjarlægðir á 9 mánuðum

Samkvæmt gögnum Facebook eru tvöfaldir aðgangar um 11% af heildarfjölda notenda á mánuði sem er um 2,5 milljarðar á mánuði. Falsaðgangar eru taldir vera um 5%.

Vandamálið er ekki nýtt af nálinni hjá Facebook en þar hefur verið ráðist í ýmsar aðgerðir til að tækla það svo sem aukið öryggi og flóknari kerfi. Á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2019 fjarlægði Facebook 5,4 milljarða falsaðganga.

Í dómsskjölunum er því haldið fram að sumir starfsmenn hafi „lýst yfir áhyggjum“ af villandi framsetningu í markaðssetningu en að ekki hafi verið gripið til aðgerða.

„Þessar ásakanir eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum og við munum verjast þeim kröftuglega,“ sagði í yfirlýsingu frá Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert