Franskur læknir meðal látinna

AFP

Franskur læknir sem hefur annast sjúklinga með kórónuveiruna lést um helgina af völdum veirunnar og er hann fyrsti franski heilbrigðisstarfsmaðurinn sem deyr af völdum farsóttarinnar.

Læknirinn var 67 ára gamall og starfaði á bráðamóttökunni á Compiegne-sjúkrahúsinu norður af París. Alls létust 112 af völdum COVID-19 í Frakklandi í gær og eru alls 674 látnir þar í landi. 

Að sögn bæjarstjórans í Compiegne, Philippe Marini, er læknirinn, Jean-Jacques Razafindranazy, einn þeirra sem kom til starfa að nýju vegna veirunnar eftir að hafa farið á eftirlaun. Razafindranazy hafi vitað af hættunni samfara því að koma til starfa en ekki látið það stöðva sig. Eiginkona hans, sem einnig er læknir, er í einangrun heima en hún er einnig smituð af veirunni.

Sonur þeirra birti afar hjartnæma færslu á Facebook þar sem hann lýsti föður sínum sem hetju. Hann þakkaði öllum þeim sem höfðu sinnt föður hans síðustu dagana á sjúkrahúsinu í Lille. Hann varar fólk við því hversu alvarlegur sjúkdómur COVID-19 veiran er og það verði að taka hann alvarlega.

AFP

Yfir sjö þúsund liggja á sjúkrahúsum í Frakklandi vegna kórónusmits og er fjórðungur þeirra mjög alvarlega veikur. 

Farið er að bera á skorti á heilbrigðisstarfsmönnum í sumum héruðum Frakklands og hefur franska járnbrautafyrirtækið SNCF ákveðið að þeir fái ókeypis í allar lestar fyrirtækisins. Er SNCF að svara kalli sjúkrahúsa í París um að fólk sem hafi menntun á sviði heilbrigðisvísinda komi til starfa. 

mbl.is