Ólympíuleikunum frestað til næsta árs

Tókýó 2021 verður það núna.
Tókýó 2021 verður það núna. AFP

Ólympíuleikunum sem fara áttu fram í Tókýó í sumar verður frestað til næsta árs vegna kórónuveirufaraldursins. Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, bað forseta Alþjóðaólympíunefndarinnar um að fresta leikunum fyrr í dag. Var hann „100% sammála“, að því er Abe sagði á blaðamannafundi rétt í þessu.

„Við báðum Bach forseta að skoða það að fresta leikunum um eitt ár til að gera íþróttafólki kleift að keppa við bestu aðstæður, og gera viðburðinn öruggan fyrir áhorfendur,“ sagði forsætisráðherrann við blaðamenn.

Ákvörðunin kemur í kjölfar viðræðna sem staðið hafa yfir í mánuði á sama tíma og þjóðir og íþróttamenn um allan heim hafa hvatt til þess að leikunum verði frestað. Alþjóðaólympíunefndin gaf út í fyrrakvöld að til greina kæmi að fresta leikunum en ákvörðun um það yrði ekki tekin fyrr en eftir fjórar vikur. Gríðarlegur þrýstingur hefur verið á nefndina að flýta ákvörðunartökunni.

Aldrei fallið niður nema vegna stríðs

Yfirvöld í Japan hafa eytt meira en 1.400 milljörðum íslenskra króna til að búa sig undir að halda leikana. Í nútímasögu leikanna hefur aldrei komið til þess að þeir séu ekki haldnir, nema vegna stríðsátaka.

Árið 1916 var leikunum aflýst vegna fyrri heimsstyrjaldarinnar og árin 1940 og 1944 var bæði sumar- og vetrarleikunum aflýst vegna þeirrar síðari.

mbl.is

Bloggað um fréttina