Leggja til lokun fjölmennasta héraðs Finnlands

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands. Í kvöld kynnti hún tillögur ríkisstjórnarinnar …
Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands. Í kvöld kynnti hún tillögur ríkisstjórnarinnar að loka af fjölmennasta hérað landsins. AFP

Finnska ríkisstjórnin hefur lagt til að héraðið Uusimaa, einnig þekkt sem Nyland, verði lokað af til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Samkvæmt tillögunum, sem verða lagðar fyrir finnska þingið á morgun, verður flestum íbúum héraðsins gert að halda sig innan þess á næstu þremur vikum hið minnsta.

Samkvæmt finnska ríkisútvarpinu Yle leggur ríkisstjórnin til að neyðarlög verði notuð til að framfylgja lokuninni, en auk ferðabannsins verður krám og veitingastöðum gert að loka.

Verði lögin samþykkt tekur ferðabannið gildi á föstudaginn. Munu lögreglumenn fylgjast með og vakta inn- og útgönguleiðir frá héraðinu.

Uusimaa er fjölmennasta hérað Finnlands, en þar býr um þriðjungur íbúa landsins, eða um 1,7 milljónir manna. Þá er höfuðborgin Helsinki miðpunktur héraðsins.

Tæplega tveir þriðju hlutar allra smita í landinu hafa komið upp í héraðinu og vill ríkisstjórnin reyna að draga úr útbreiðslunni til annarra héraða.

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, sagði þegar hún tilkynnti um tillögurnar að gerðar yrðu undantekningar, svo sem að fólk fengi að fara til síns heima.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert