Trump bakkar með hugmyndir um sóttkví í New York

Ferðaviðvaranirnar ná til New York ríkis, New Jersey og Connecticut.
Ferðaviðvaranirnar ná til New York ríkis, New Jersey og Connecticut. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að ekki sé þörf á að setja New York ríki í sóttkví, en í gær hafði hann greint blaðamönnum frá því að hann væri að meta hvort setja ætti ríkið í sóttkví þar sem það væri suðupottur.

Seinna í gær tilkynnti forsetinn svo á Twitter að eftir ráðleggingar aðgerðahóps Hvíta hússins í málefnum kórónuveirunnar og ríkisstjóra New York, New Jersey og Connecticut hafi hann beðið miðstöð sótt­varna í Banda­ríkj­un­um um að gefa út víðtækar ferðaviðvaranir í samráði við alríkisstjórnina. „Sóttkví er ekki nauðsynleg,“ sagði hann.

Meira en 52 þúsund tilvik hafa komið upp í New York og er það um helmingur þeirra smita sem hafa greinst í Bandaríkjunum í heild.

Donald Trump hefur fallið frá hugmyndum um að setja ríki …
Donald Trump hefur fallið frá hugmyndum um að setja ríki í sóttkví, en þess í stað var gefin út ferðaviðvörun í gær. AFP

Miðstöð sóttvarna í Bandaríkjunum gaf svo út tilkynningu þar sem íbúar þessara þriggja ríkja voru hvattir til að ferðast ekki næstu 14 daga nema nauðsyn krefði. Þá var tekið fram að ferðaviðvaranirnar ættu ekki við um mikilvæga innviði, svo sem heilbrigðisþjónustu, heilbrigðisstarfsfólk og matvæladreifingu.

Áður en Trump bakkaði með áform sín um sóttkví fyrir allt ríkið hafði Andrew Cu­omo, rík­is­stjóri New York, gagnrýnt þau áform og sagði ekki hvort slíkt væri hægt lagalega séð og einnig að hann væri óviss hvortþ að myndi gera eitthvað út frá læknisfræðilegu sjónarmiði. „En ég get sagt að mér líst ekki vel á þetta. Ég veit ekki einu sinni hvað ætti að fel­ast í þessu en ég get strax sagt að mér lít­ist ekki á þetta,“ sagði hann um hina mögulegu sóttkví í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert