Norðmenn ríða á vaðið með lyfjaprófanir

Norski heilbrigðisráðherrann Bent Høie segist binda vonir við lyf sem …
Norski heilbrigðisráðherrann Bent Høie segist binda vonir við lyf sem nú er reynt í Noregi gegn kórónuveirunni. Ljósmynd/Wikipedia.org/Jarle Vines

Norðmenn reyna nú þjóða fyrstir lyf sem vonir standa til að muni gagnast í baráttunni við kórónuveiruna og gekkst fyrsti sjúklingurinn undir prófraun á Háskólasjúkrahúsinu í Ósló í gær, að sögn Bent Høie, heilbrigðisráðherra Noregs.

Alls munu 22 sjúkrahús í Noregi taka þátt í tilrauninni sem framkvæmd er í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina. „Hér er um að ræða skref í áttina að því að prófa nýjar úrlausnir hvaðanæva úr heiminum,“ segir John-Arne Røttingen, formaður norska rannsóknaráðsins, eða Forskningsrådet, í samtali við ríkisútvarpið NRK. Røttingen segir prófanir nýja lyfsins, sem eru samstarfsverkefni margra þjóða, geta skipt sköpum í baráttunni þótt það sé engan veginn öruggt.

„Álagið á heilbrigðisstarfsfólk verður áfram gríðarlegt,“ segir Høie við NRK. „Ætlum við okkur að koma þeim sem mest þarfnast til aðstoðar til hjálpar neyðumst við til að breyta reglunum.“

Nær 3.600 smitaðir í Noregi

Hann segir öllu máli skipta að vinna tíma til að koma þeim til hjálpar sem þegar eru sýktir. „Okkur er nauðugur einn kostur að hemja útbreiðslu veirunnar og draga úr smiti sem mest má vera,“ segir heilbrigðisráðherra.

Lyfið, sem vonir eru nú helst bundnar við, er Plaquenil, en því hefur helst verið beitt gegn sumum afbrigðum mýrarköldu, eða malaríu, en enn fremur eru ebólu- og HIV-lyf til prófunar gegn veirunni sem nú geisar.

Miðað við nýlega tölfræði norskra heilbrigðisyfirvalda eru tæplega 3.600 smitaðir af veirunni, þar af er talið að rúmur helmingur hafi smitast í Noregi, 1.197 erlendis en óþekkt er hvar 561 smitaðist. Undir próf hafa 78.036 gengist og þar af 4,5 prósent reynst jákvæð. Þar af dvelja nú 302 á sjúkrahúsum en þeim fjölgar ört. Af þeim fjölda gistir 81 sjúklingur gjörgæsludeildir norskra sjúkrahúsa.

VG

Sunnmørsposten

Tilkynning norsku ríkisstjórnarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert