Útlit fyrir að skordýr verði leyfð til manneldis

Sitt sýnist líklega hverjum um ágæti skordýra til manneldis.
Sitt sýnist líklega hverjum um ágæti skordýra til manneldis. Ljósmynd/Pixbay

Vonir skordýraiðnaðarins standa til að mjölormaborgarar, engisprettukokteilar og krybbumúslí verði brátt hluti af mataræði Evrópubúa. Innan nokkurra vikna er búist við því að matvælaöryggisstofnun ESB leyfi innflutning á heilum mjölormum, krybbum og engisprettum og skilgreini skordýrin þar með sem örugg til manneldis. 

Úrskurðurinn mun líklega leiða til þess að sala á skordýrunum verður heimil strax í haust. Slíkt myndi opna á möguleika á fjöldaframleiðslu á ýmsum skordýraréttum sem Evrópubúar telja framandi. 

„Það eru miklar líkur á að grænt ljós verði gefið á þetta á næstu vikum,“ sagði Christophe Derrien, framkvæmdastjóri International Platform of Insects for Food & Feed, samtaka um alþjóðlega sölu á skordýrum til manneldis, í samtali við Guardian

„Bylting fyrir greinina“

„Þessar heimildir verða bylting fyrir greinina svo við bíðum nokkuð óþolinmóð eftir þessu. Matvælaöryggisstofnunin tekur sinn tíma við ákvarðanatöku og hún hefur kallað eftir mjög ítarlegum upplýsingum vegna hennar, sem er ekki slæmt. Við búumst við því að ef þetta verður leyft muni það hafa snjóboltáhrif og fleira verði leyft í kjölfarið.“

Í Bretlandi, Hollandi, Belgíu, Danmörku og Finnlandi hafa matvörur sem innihalda skordýr verið leyfðar um tíma þrátt fyrir að lög Evrópusambandsins sem samþykkt voru árið 1997 segi til um að matvæli sem hafi ekki verið borðuð í Evrópu fyrir það ár þurfi að vera samþykkt sérstaklega til innflutnings. 

Ráð við ágangi á auðlindir

Um 500 tonn af matvælum sem búin eru til úr skordýrum eru framleidd árlega. Slíkar vörur eru meðal annars bannaðar í Frakklandi, Ítalíu og á Spáni.

„Matvælin eru allt frá skordýrafordrykkjum og snakki til skordýrapasta og -borgara. Við teljum að það að rækta skordýr til manneldis sé ein af lausnunum á nokkrum af stærstu áskorununum sem við stöndum frammi fyrir á jörðinni hvað varðar ágang á auðlindir hennar. Skordýraframleiðsla er ekki of krefjandi fyrir jörðina og gerir okkur kleift að framleiða hágæðaprótín,“ segir Derrien. 

mbl.is

Bloggað um fréttina