Yfir 40 þúsund látnir í Bandaríkjunum

Stytta af tónskáldinu George M. Cohan á Times Square í …
Stytta af tónskáldinu George M. Cohan á Times Square í New York-borg. Í bakgrunni er eitt af um 1.800 auglýsingaskiltum í borginni með upplýsingum í tengslum við kórónuveiruna. AFP

Yfir 742 þúsund tilfelli kórónuveirunnar hafa greinst í Bandaríkjunum og yfir 40 þúsund manns hafa látist, þar af yfir 13 þúsund í ríkinu New York.

Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, sagði í dag að faraldurinn væri á niðurleið en bætti við: „Núna er enginn tími til að vera kokhraustur og ekki heldur til að vera hrokafullur.“

Andrew Cuomo ríkisstjóri New York.
Andrew Cuomo ríkisstjóri New York. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur undanfarið deilt við ríkisstjóra um fjölda prófa sem boðið er upp á vegna veirunnar. Trump sagði á Twitter að nóg væri til af prófum og bætti við að ríkisstjórar yrðu að klára dæmið almennilega.

Ralph Northam, ríkisstjóri Virginíu, svaraði með því að segja að ummælin væru út í hött. Prófin væru alls ekki nógu mörg.

Gretchen Whitmer, ríkisstjóri Michigan, sagði að ríkið gæti tvöfaldað eða þrefaldað fjölda prófa ef nóg væri til af búnaði og kallaði hún eftir aukinni hjálp frá ríkisstjórninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert