Afnema dauðarefsingu fyrir glæpi framda á barnsaldri

Yfirvöld í Sádi-Arabíu hyggjast hætta að dæma fólk til dauða …
Yfirvöld í Sádi-Arabíu hyggjast hætta að dæma fólk til dauða fyrir glæpi sem það framdi á barnsaldri. AFP

Yfirvöld í Sádi-Arabíu hyggjast hætta að dæma fólk til dauða fyrir glæpi sem það framdi á barnsaldri. Frá þessu greinir mannréttindaráð landsins og er breytingin sögð liður í að draga úr gagnrýni á mannréttindamál í Sádi-Arabíu. 

Alls voru 184 mann­eskj­ur tekn­ar af lífi af yf­ir­völd­um í Sádi-Ar­ab­íu í fyrra og hafa aldrei verið jafn marg­ar á einu ári samkvæmt skýrslu Am­nesty In­ternati­onal sem kom út fyrr í þessum mánuði. Á heimsvísu fækkaði af­tök­um árið 2019 frá fyrra ári. Aðeins er vitað um tutt­ugu lönd í heim­in­um sem fram­kvæma af­tök­ur.

Af þeim 184 sem tekin voru af lífi í Sádi-Ar­ab­íu í fyrra voru sex kon­ur og og rúm­lega helm­ing­ur allra var er­lend­is frá. Að minnsta kosti einn var sakaður um lögbrot undir lögaldri. Til sam­an­b­urðar var fjöldi af­taka 148 árið 2018.

Í stað dauðarefsingar fyrir glæpi þar sem hinn brotlegi er undir lögaldri verður kveðinn upp konunglegur úrskurður í slíkum málum þar sem hámarksrefsing er tíu ár í ungmennafangelsi. 

Óljóst er hins vegar hvenær lagabreytingin öðlast gildi.

mbl.is