Græddi á að versla við sjálfan sig

Pitsustaðareigandi í Bandaríkjunum græddi á að versla við sjálfan sig.
Pitsustaðareigandi í Bandaríkjunum græddi á að versla við sjálfan sig. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eigandi pítsustaðar í Bandaríkjunum rambaði á dögunum inn á óvænt gróðatækifæri: Með því að kaupa pítsu hjá sjálfum sér í gegnum þriðja aðila, heimsendingarþjónustu, gat hann grætt átta dali á hverja pítsu. Hann lét ekki segja sér það tvisvar og pantaði tíu pítsur heim til vinar síns. Hagnaður: 80 dalir. Til að bæta um betur hélt hann síðan áfram, en hætti að setja álegg á pítsurnar, þannig að hagnaðurinn varð enn meiri.

Eigandinn, sem sagt er frá á BBC, sá pítsurnar sínar auglýstar í heimsendingaappi, en hafði aldrei beðið um að vera í appinu. Þegar hann komst á snoðir um að maturinn hans væri til sölu þar ákvað hann að panta sjálfur pítsu. Í appinu borgaði hann 16 dali fyrir pítsu sem á staðnum kostaði 24 dali. Þegar sendlarnir komu að sækja hana borguðu þeir honum það verð.

Hann áttaði sig á að vörurnar hans voru á lækkuðu verði í appinu af því að verið var að mæla eftirspurnina eftir ákveðnum vörum í appinu. Aðstandendur appsins gerðu þetta til þess að geta síðan sýnt veitingastöðum fram á að vörurnar þeirra væru eftirsóttar hjá þeim til þess að ná betri samningum við fyrirtækin.

Heimsendingarþjónustan heitir DoorDash og er sögð stunda þetta; að senda út mat frá fyrirtækjum án samráðs við þau, eins og vinur eigandans hafði komist að þegar honum fóru að berast kvartanir um sendingar, sem var þjónusta sem hann bauð ekki upp á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert