Enginn skóli fyrr en bóluefni er komið

AFP

Yfir 5,5 milljónir hafa smitast af kórónuveirunni í heiminum og meira en tveir af hverjum þremur þeirra eru búsettir í Evrópu og Bandaríkjunum. Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte, segir að hann muni ekki heimila námsmönnum að mæta til skóla að nýju fyrr en bóluefni verður í boði við veirunni. 

Að minnsta kosti 5.505.307 smit hafa verið staðfest í heiminum og af þeim eru 346.188 látnir. Flestir í Evrópu en engin heimsálfa hefur orðið jafn illa úti í faraldrinum. Þar hafa 2.047.401 smit verið staðfest og 172.824 látist. Í Bandaríkjunum eru staðfest smit 1.662.768 og 98.223 dauðsföll. Fjöldi staðfestra smita hefur tvöfaldast á einum mánuði og undanfarna 11 daga hefur yfir ein milljón nýrra smita verið skráð.

Tekið skal fram að mjög misjafnt er á milli landa hvernig staðið er að sýnatöku og víða eru aðeins tekin sýni ef miklar líkur þykja á að viðkomandi sé með COVID-19.

AFP

25 milljónir barna send heim

Börn á Filippseyjum áttu að snúa aftur í skólana í lok ágúst en skólum var lokað í landinu í mars þegar farsóttin kom til landsins. Þetta hafði áhrif á skólagöngu 25 milljóna nemenda á grunn- og framhaldsskólastigi. 

Í  gær greindi Deterte frá því að áhættan væri of mikil og því yrði ekkert af skólagöngu fyrr en bóluefni er komið. Þó svo að þetta geti haft áhrif á námsframvindu þeirra. 

Þrátt fyrir að víðs vegar um heiminn standi yfir rannsóknir á mögulegum bóluefnum er óvíst hvenær slíkt verður tilbúið í framleiðslu og almenna dreifingu. Venjulega er kennsla í ríkisreknum skólum á Filippseyjum frá júní fram í apríl. 

174 dauðsföll á einum sólarhring

Greint var frá því í morgun að 174 hafi látist af völdum COVID-19 í Rússlandi síðasta sólarhringinn og hafa þeir aldrei verið jafn margir á einum sólarhring. Á sama tíma hafa 12 þúsund náð bata. Alls eru 3.807 látnir af völdum veirunnar í Rússlandi og staðfest smit eru  362.342 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert