Mál Tomlinsons tekið upp eftir 47 ára bið

Ricky Tomlinson, sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt í bresku …
Ricky Tomlinson, sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt í bresku gamanþáttunum The Royle Family, var dæmdur í tveggja ára fangelsi árið 1973 fyrir vegna hótana og óspekta á almannafæri í verkfalli verkalýðsfélaga á áttunda áratugnum. Ljósmynd/Wikipedia

Endurupptökunefnd í Bretlandi hefur sent mál breska leikarans Rickys Tomlinsons fyrir áfrýjunardómstól eftir að ný gögn í máli hans benda til þess að hann hafi verið ranglega sakfelldur. 

Tomlinson, sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt í bresku gamanþáttunum The Royle Family, var dæmdur í tveggja ára fangelsi árið 1973 vegna hótana og óspekta á almannafæri í verkfalli verkalýðsfélaga á áttunda áratugnum. Tomlinson var sakfelldur ásamt 23 öðrum og hefur mál 14 þeirra verið sent fyrir áfrýjunardómstól eftir að ný gögn voru lögð fram sem benda til þess að upplýsingum sem fengust við skýrslutökur í upphafi málanna hafi verið eytt. 

Tomlinson starfaði sem múrari á árum áður áður en leikaraferillinn fór á flug, eftir fangelsisvistina, í kringum 1980. Hann var öflugur í verkalýðshreyfingunni og tók þátt í verkfalli árið 1972 þar sem hann barðist fyrir bættum launum og auknu öryggi á byggingarsvæðum. 

Mánuðum eftir að verkfallinu lauk var hópur manna handtekinn, þar á meðal Tomlinson, og fengu á bilinu þriggja mánaða til þriggja ára fangelsisdóm. Hópur fólks hefur barist fyrir því að mál mannanna 24 verði tekin upp að nýju. Tomlinson, sem er áttræður, segir það góðar fréttir að endurupptökunefnd hafi loks sent málið áfram til meðferðar og að nú gefist tækifæri til að sanna að sakfellingarnar hafi einungis byggst á pólitískum árásum á verkalýðshreyfinguna.

Frétt The Guardian

mbl.is