Mótmælin gætu orðið vendipunktur í bandarískri sögu

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP

„Ef við viljum alvöru breytingar, er valið ekki á milli mótmæla og stjórnmála. Við verðum að velja bæði. Við þurfum að vekja fólk til vitundar og á sama tíma kjósa fulltrúa sem munu standa fyrir breytingum.“ Þetta segir Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti. 

Í færslu Obama á Facebook í dag segir forsetinn fyrrverandi að mótmælin sem standa nú yfir í Bandaríkjunum vegna morðsins á Geroge Floyd gætu orðið vendipunktur í sögu Bandaríkjanna. 

„Ég veit að síðustu mánuðir hafa verið erfiðir og dregið úr kjarki — óttinn, sorgin, óvissan og erfiðleikarnir sem fylgja heimsfaraldri hafa blandast þeirri átakanlegu áminningu að fordómar og ójöfnuður hafa enn gríðarleg áhrif á Bandaríkin. En þegar ég sé baráttuhug ungs fólks af öllum kynþáttum verð ég vongóður. Ef við beinum réttlætanlegri reiði okkar með friðsamlegum, áhrifaríkum og staðföstum aðgerðum, gæti þessi stund orðið sannarlegur vendipunktur í sögu þjóðarinnar,“ segir Obama. 

„Við skulum ekki afsaka ofbeldi“

Þá sagðist Obama fordæma þá mótmælendur sem hafa gripið til ofbeldis. 

„Við skulum ekki afsaka ofbeldi, færa fram rök fyrir því eða taka þátt í því. Ef við viljum að réttarkerfið okkar og bandarískt samfélag í heild sinni sé siðferðislega rétt, verðum við sjálf að vera fyrirmynd þess.“

Þá hvatti forsetinn mótmælendur og aðra að kjósa, ekki aðeins í forseta- eða þingkosningum heldur einnig á öðrum stigum stjórnkerfisins. 

„Það eru borgarstjórar og embættismenn innan ríkja sem ráða lögreglustjóra og semja við stéttarfélög lögreglumanna. Það eru saksóknarar sem ákveða hvort eigi að rannsaka eða ákæra þá lögreglumenn sem misbeita valdi sínu. Þetta eru allt embætti sem er kosið í.“mbl.is

Bloggað um fréttina