Býðst til að segja af sér vegna deilna við N-Kóreu

Sameiningarmálaráðherra Suður-Kóreu, Kim Yeon-chul, sést hér til hægri ásamt samgönguráðherra …
Sameiningarmálaráðherra Suður-Kóreu, Kim Yeon-chul, sést hér til hægri ásamt samgönguráðherra landsins, Kim Hyun-mee, við undirritun fyrr á árinu um sameiginlega lestarteina Suður- og Norður-Kóreu. Ætla má að slík plön séu nú í uppnámi. AFP

Kim Yeon-chul, sameiningarráðherra Suður-Kóreu, bauðst í dag til að segja af sér vegna aukinnar spennu á milli Suður- og Norður-Kóreu. 

Yeon-chul segist taka fulla ábyrgð á versnandi samskiptum ríkjanna. 

Boð ráðherrans kemur degi eftir að Norður-Kórea sprengdi í loft upp samvinnustofnun ríkjanna sem var staðsett við landa­mæra­bæ­inn Kae­song, á yf­ir­ráðasvæði Norður-Kór­eu. Stofnuninni var ætlað að bæta tengsl landanna tveggja. Þá hefur norður-kóreski herinn gefið út að hann muni senda herlið inn á hlutlausa svæðið sem aðskilur löndin.

Forseti Suður-Kóreu sagður þjónn Bandaríkjanna

Í gær skýrðu stjórnvöld í Norður-Kóreu hvers vegna þau sprengdu tengslaskrifstofuna upp en í grein ríkisfjölmiðils ásökuðu stjórnvöld Suður-Kóreu um að brjóta samninga frá árinu 2018 og hegða sér eins og hundur af blönduðu kyni. Systir Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, sakaði þá forseta Suðursins um að vera þjón Bandaríkjanna. 

Þó Suður-Kórea segist vera tilbúin í viðræður hafa stjórnvöld þar fordæmt aðgerðir Norður-Kóreu sem yfirvöld segja vitlausar og skaðlegar. Spenna í sam­skipt­um ríkj­anna hef­ur færst í auk­ana und­an­farn­ar vik­ur, meðal ann­ars því að norðurkór­esk­ir liðhlaup­ar voru sakaðir um senda áróðurs­blöð og bæk­linga yfir landa­mær­in.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert