Nýsjálensk klámauglýsing vekur heimsathygli

„Við erum hér af því að sonur þinn fann okkur …
„Við erum hér af því að sonur þinn fann okkur á netinu,“ segir klámmyndaleikkonan Sue við móður drengs sem kemur til dyra. Skjáskot/Youtube

Auglýsingaherferð á Nýja-Sjálandi þar sem tveir klámmyndaleikarar banka upp á hjá ungum dreng hefur vakið heimsathygli. Markmið herferðarinnar er að vekja athygli á klámáhorfi barna og stuðla að auknu samtali milli foreldra og ungmenna um klámefni sem auðveldlega er hægt að nálgast á netinu. 

„Við erum hér af því að sonur þinn fann okkur á netinu,“ segir klámmyndaleikkonan Sue við móður drengs sem kemur til dyra. Hræðslusvipur móðurinnar segir allt sem segja þarf.

Trina Lowry, starfsmaður hjá innanríkisráðuneyti Nýja-Sjálands, segir markmið herferðarinnar vera að auka skilning foreldra á þeim hættum sem leynast á netinu hvað varðar klám og ungmenni.  

Lowry bendir á að klámáhorf sé ekki besta leiðin fyrir börn og ungmenni til að læra um kynlíf. „Hann veit kannski ekki hvernig sambönd virka, við erum ekki mikið að tala um samþykki, við komum okkur bara beint að verki,“ segir Sue í auglýsingunni og mótleikari hennar bætir við. „Ég myndi aldrei haga mér þannig í raunveruleikanum.“ Og það eru eflaust mikilvægustu skilaboðin í auglýsingunni: Að ungmenni geri sér grein fyrir muninum á því sem á sér stað í klámmyndum og í raunheimum. 

„Samtal er lykillinn. Að ræða við börnin um þessi mál er lykilatriði,“ segir Lowry.

Hér má sjá auglýsinguna í heild sinni: 

mbl.is