Trudeau fordæmir handtökur Kínverja

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. AFP

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, fordæmdi í kvöld Kínverja fyrir að hafa handtekið og ákært tvo Kanadamenn fyrir njósnir, en Trudeau sagði augljóst að tilgangur ákæranna væri pólitískur. 

Kínverjar ákváðu fyrir helgi að ákæra mennina tvo, Michael Kovrig, fyrrverandi starfsmann utanríkisþjónustu Kanada, og kaupsýslumanninn Michael Spavor, fyrir að stunda njósnir og „ljóstra upp um ríkisleyndarmál“. 

Mennirnir voru fyrst handteknir fyrir um einu og hálfu ári í kjölfar þess að dómstóll í Kanada samþykkti framsalsbeiðni frá Bandaríkjastjórn á hendur Meng Wanzhou, en samskipti Kínverja og Kanadamanna hafa hríðversnað í kjölfarið.  

„Þessi handahófskennda frelsissvipting kanadískra ríkisborgara er óásættanleg og veldur miklum áhyggjum, ekki bara fyrir Kanadamenn heldur einnig fyrir aðrar þjóðir sem sjá Kína nota ástæðulausar handtökur til þess ná fram pólitískum markmiðum sínum,“ sagði Trudeau á daglegum fréttamannafundi sínum. 

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur einnig fordæmt ákærunar, en hann krafðist þess fyrr í dag að mennirnir tveir yrðu látnir lausir úr haldi. Ástralía, Bretland, Frakkland og Evrópusambandið hafa einnig látið í ljós svipaðar óskir. Þakkaði Trudeau fyrir stuðning bandamanna Kanada.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert