Vill stofna garð um þjóðhetjur Bandaríkjanna

Donald Trump Bandaríkjaforseti við athöfn á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna í dag …
Donald Trump Bandaríkjaforseti við athöfn á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna í dag við Rushmore fjall. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur fyrirskipað að stofnaður verði almenningsgarður til minningar um þjóðhetjur Bandaríkjanna. Þetta tilkynnti hann í dag, á þjóðhátíðardag landsins.

Samkvæmt forsetaskipun fær stýrihópur um verkefnið tvo mánuði til að koma saman plani fyrir garðinn, meðal annars að finna honum staðsetningu.

Undanfarið hafa styttur og minnismerki sem tengjast sögu þrælahalds í Bandaríkjunum verið í kastljósinu eftir umfangsmikil mótmæli sem fóru af stað í kjölfar þess að George Floyd var drepinn af lögreglumanni í Minneapolis. Hafa fjölmargar styttur verið skemmdar eða eyðilagðar meðan aðrar hafa verið teknar niður.

Trump varði tákn suðurríkjanna í ræðu sinni, sem hann hélt við Rushmore fjall, þar sem fjórir fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna eru höggnir í stóra fjallshlíð. Sagði Trump táknin vera hluti af bandarískri sögu. Gagnrýndi hann jafnfarmt þá sem hafa barist gegn rasisma og skemmt styttur og sagði þá ógna arfleið landsins.

Garðurinn á að opna á þjóðhátíðardaginn árið 2026 samkvæmt forsetaskipuninni, en fram kemur að þar eigi að vera styttur af Bandaríkjamönnum sem hafa verið sögulega þýðingamiklir. Sem dæmi eru nefndir landsfeðurnir (e. founding fathers), forsetarnir Abraham Lincoln og Ronald Reagan, Wright bræður, Betsy Ross, sem saumaði fyrsta bandaríska fánann, hæstaréttardómarinn Antonin Scalia, predikarinn Billy Graham, flugkonan Amelia Earhart, rauðsokkan Susan B. Anthony og fleiri.

Þá segir að stytturnar eigi að vera af fólki sem hafi gefið af sér á jákvæðan hátt til samfélagsins, hvort sme það hafi verið í formi þess að afnema þrælahald, verið stríðshetjur, uppfinningamenn eða frumkvöðlar. Einnig er tiltekið að lögreglumenn, slökkviliðsmenn, verkalýðsleiðtogar og talsmenn fátækra eigi heima á listanum. Andstæðingar þjóðernis sósialisma eða alþjóða sósialisma, sem og fyrrverandi forsetar eða valdamenn í samfélaginu geta einnig átt heima í garðinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina