Bílstjóri heiladauður eftir árás

Áætlun strætisvagna fór úr skorðum í dag þegar nokkrir samstarfsmenn …
Áætlun strætisvagna fór úr skorðum í dag þegar nokkrir samstarfsmenn bílstjórans neituðu að vinna og mótmæltu með því hinni grimmilegu árás. Myndin er úr safni. AFP

Strætisvagnabílstjóri í Frakklandi var úrskurðaður heiladauður í dag eftir að nokkrir einstaklingar sem hann neitaði um far, vegna þess að þeir báru ekki andlitsgrímur eins og krafist er, réðust á hann. 

Einn er í varðhaldi vegna málsins og er annarra grunaðra leitað. Árásarmennirnir reyndu að fara inn í strætóinn á sunnudagsnótt án þess að hafa strætómiða og báru þar að auki ekki grímur. Þegar ökumaðurinn, sem er á sextugsaldri, reyndi að stöðva för þeirra inn í vagninn var hann ítrekað laminn. Það leiddi til alvarlegs höfuðáverka. 

Bílstjórinn var meðvitundarlaus þegar hann var fluttur á sjúkrahús og læknar úrskurðuðu hann heiladauðan í dag, að sögn heimildarmanns innan lögreglunnar. 

Áætlun strætisvagna fór úr skorðum í dag þegar nokkrir samstarfsmenn bílstjórans neituðu að vinna og mótmæltu með því hinni grimmilegu árás.

mbl.is