Forseti Brasilíu með veiruna

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, er með kórónuveiruna.
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, er með kórónuveiruna. AFP

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur greinst með kórónuveiruna. 

Bolsonaro fór í sína fjórðu sýnatöku í gær eftir að hafa fundið fyrir einkennum veirunnar. Hann hefur frá upphafi gert lítið úr heimsfaraldri kórónuveirunnar og líkt sjúkdómnum við kvefpest. 

Fram kemur á BBC að forsetinn hafi ítrekað sagt að hann gæti ekki orðið alvarlega veikur af veirunni. 

Yfir 65.000 hafa látist vegna veirunnar í Brasilíu og staðfest smit eru nú rúmlega 1,6 milljónir. Aðeins í Bandaríkjunum eru staðfest smit og dauðsföll vegna veirunnar fleiri.

Bolsonaro, líkt og kollegi hans Donald Trump Bandaríkjaforseti, hefur ítrekað mætt á opinbera viðburði án andlitsgrímu, jafnvel þó að reglur ýmissa svæða krefjist þess. 

mbl.is