Bolsonaro sýnir einkenni og fór í veirupróf

Forsetinn fær niðurstöðu úr sýnatökunni í dag, þriðjudag.
Forsetinn fær niðurstöðu úr sýnatökunni í dag, þriðjudag. AFP

Jair Bolsonaro Brasilíuforseti sagðist í gær hafa farið í sýnatöku eftir að hann byrjaði að finna fyrir einkennum sem einkenna Covid-19, þar á meðal hita. Bolsonaro hefur frá upphafi gert lítið úr heimsfaraldri kórónuveiru og líkt sjúkdómnum við kvefpest.

Forsetinn sagði við CNN í Brasilíu að hann hefði farið í röntgenmyndatöku á lungum á herspítala til öryggis, og að niðurstaða sýnatökunnar kæmi í ljós á þriðjudag.

Bolsonaro skrifaði nýverið undir lög sem gerðu notkun andlitsgríma skyldu á almannafæri en neitaði að skrifa undir lög sem gera það að skyldu að vera með andlitsgrímu í kirkjum, skólum og verslunum. Á sama tíma sagðist hann ekki hafa neina ástæðu til að óttast veiruna og ef hann myndi smitast myndi hann ekki finna fyrir neinu nema í mesta lagi smá flensu eða kvefi.

Í gær, mánudag, gerði neitaði hann svo að skrifa undir lög sem hefðu sett grímuskyldu á í fangelsum og hefðu gert fyrirtækjum skylt að veita upplýsingar um það hvernig ætti að nota og gangast um andlitsgrímur.

Hann setti inn myndir á samfélagsmiðla á laugardaginn þar sem mátti sjá hann grímulausan að snæða hádegisverð með sendiherra Bandaríkjanna og öðrum ráðherrum í tilefni þjóðhátíðardags Bandaríkjanna.

Brasilía hefur farið næst verst allra ríkja í heiminum í faraldrinum en þar hafa fleiri en 65 þúsund látið lífið og fleiri en 1,6 milljónir staðfestra smita greinst.

mbl.is