„Óþarfa áhyggjur yfir smá flensu“

Yfir eitt þúsund létust af völdum kórónuveirunnar í Brasilíu síðasta sólarhringinn og hafa aldrei verið jafn margir en forseti landsins, Jair Bolsonaro, er einn þeirra sem hefur virt lokanir að vettugi og telur þetta óþarfa áhyggjur yfir smá flensu. Aðildarríki Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) hafa samþykkt að viðbrögð stofnunarinnar og ríkja heims við faraldrinum verði rannsökuð. Um sjálfstæða rannsókn verður að ræða.

Kórónuveirufaraldurinn herjar nú af fullum þunga á ríki Rómönsku-Ameríku en staðfest smit nálgast fimm milljónir hratt og yfir 320 þúsund eru látnir af völdum COVID-19 í heiminum. 

Á sama tíma og hagkerfi heims eru illa löskuð vegna veirunnar óttast margir að það versta sé eftir þegar veiran fer að herja af fullum þunga á fátækari ríki heims. 

Gilberto Ferreira, eftirlaunaþegi í Rio de Janeiro, segir í samtali við AFP-fréttastofuna að staða mála í Brasilíu hafi verið slæm en hún sé að versna. Ríkisstjórn landsins sé óábyrg og almenningur fari ekki eftir þeim reglum sem gilda vegna farsóttarinnar.

Staðfest smit í Brasilíu eru komin yfir 271 þúsund og skipa því þriðja sæti listans yfir fjölda smita í heiminum á eftir Bandaríkjunum og Rússlandi. Talið er að töluvert sé í að farsóttin nái þar hámarki og það verði væntanlega ekki fyrr en í júní.

Vegna fjölgunar sýkinga í Rómönsku-Ameríku hafa einhver svæði neyðst til að hætta við áætlanir um að aflétta takmörkunum. Má þar nefna næst stærstu borg Argentínu, Cordoba, en þar hefur verið hætt við að aflétta takmörkunum á útgöngubanni vegna nýrra smita. 

Framkvæmdastjóri Alþjóðabankans, David Malpass, varaði við því að allt að 60 milljónir íbúa fátækari svæða heimsins muni hafna í örbrigð vegna faraldursins. Á sama tíma eykst þrýstingur á að aflétta takmörkunum líkt og í Chile þar sem efnahagsástandið er orðið mjög erfitt. Þar hefur staðfestum smitum fjölgað á sama tíma og stjórnvöld hafa sent herinn út í úthverfi höfuðborgarinnar, Santiago, til að stöðva átök sem hafa blossað upp vegna matarskorts og atvinnuleysis. 

„Þeir eru án vinnu og eru lokaðir inni á heimilum sínum. Þeir geta ekki farið og leitað sér að vinnu,“ segir Jorge, atvinnulaus trésmiður, sem AFP ræddi við. „Þeir eru að neyða Chile-búa, verkamenn, til að fara út og stela.“

mbl.is

Bloggað um fréttina