Eigandinn ákærður fyrir manndráp af gáleysi

Formúlu 1 rússíbaninn í Parc Saint-Paul.
Formúlu 1 rússíbaninn í Parc Saint-Paul.

Eigandi Saint-Paul skemmtigarðsins í norðurhluta Frakklands hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi eftir að kona féll úr rússíbana í garðinum og lést um helgina.

Konan, sem var 32 ára að aldri, flaug úr sætinu sem hún var fest í með öryggisbelti í rússíbananum sem nefnist Formula 1. Eiginmaður hennar sat við hliðina á henni en gat ekkert gert til að koma henni til bjargar. Rússíbaninn er ekki bannaður börnum en annað banaslys varð í rússíbananum árið 2009. Enginn var látinn sæta ábyrgð þá en nú hefur eigandinn og framkvæmdastjórinn, Gilles Campion, verið ákærður en ekki er víst að hann verði nokkurn tíma sakfelldur. 

Campion segir að síðasta öryggiseftirlit hafi farið fram í nóvember en skylda er að slíkt eftirlit fari fram árlega.

Að sögn saksóknara í Beauvais, Florent Boura, voru ný öryggisbelti sett í rússíbanann eftir banaslysið 2009 og þegar skoðunin var gerð í nóvember hafi þau enn verið í notkun. Síðan þá hafi verið skipt um öryggisbelti og spurningin sé hvort stjórnendur skemmtigarðsins hafi ekki átt að tilkynna um skiptin og óska eftir nýrri skoðun. 

mbl.is