Hæstiréttur úrskurðar um skattframtöl Trump

Donald Trump Bandaríkjaforseti vill að fjárhagurinn sé hans einkamál.
Donald Trump Bandaríkjaforseti vill að fjárhagurinn sé hans einkamál. AFP

Hæstiréttur Bandaríkjanna mun í dag taka ákvörðun um það hvort Bandaríkjaþing og saksóknarar geti skoðað skattframtöl og aðrar fjárhagsskýrslur Donald Trump Bandaríkjaforseta. Úrskurður hæstaréttar gæti haft í för með sér verulegar pólitískar afleiðingar.

Trump hefur neitað að deila skjölum sem snerta fjárhag hans og viðskipti en lögfræðingar hans halda því fram að hann njóti algerrar friðhelgi á meðan hann sitji á forsetastóli. Hæstiréttur mun láta reyna á þá fullyrðingu og hefur áhrif á það hversu langt þingmenn geta gengið í að rannsaka forsetann. 

Jafnvel þó hæstiréttur myndi úrskurða í þágu þingsins myndi það ekki endilega þýða að skattframtöl hans yrðu gerð opinber fyrir forsetakosningarnar sem fara fram í nóvember. 

Trump er fyrsti forsetinn síðan Richard Nixon var í embætti, frá 1969 til 1974, sem hefur ekki gert skattframtöl sín opinber. Trump kallar rannsókn á skattamálum sínum „nornaveiðar“ og lítur á málið sem tækifæri fyrir þingið til að áreita hann.

mbl.is