Breytir Ægisif í mosku á ný

Fjölmenni kom saman fyrir utan Ægisif til að fagna ákvörðun …
Fjölmenni kom saman fyrir utan Ægisif til að fagna ákvörðun Erdogans. AFP

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, tilkynnti í dag að hin fornfræga Ægisif í Istanbúl myndi opna á ný sem moska. Tilkynningin hefur vakið reiði meðal kristinna manna og í Grikklandi. 

Ríkisstjórn Tyrklands samþykkti árið 1935 að Ægisif ætti eingöngu að vera safn, en æðsti stjórnskipunardómstóll Tyrklands ákvað fyrr í dag að ógilda þá ákvörðun, sem aftur veitti Erdogan heimild fyrir ákvörðun sinni. 

Kirkjan var reist af Jústíníanusi, keisara aust-rómverska ríkisins, á árunum 532-537. Eftir að Ottómanar hertóku Konstantínópel árið 1453 var Ægisif breytt í mosku og gegndi hún því hlutverk í tæplega fimm aldir eftir það. 

„Bein ögrun við hinn siðmenntaða heim“

Stjórnvöld í Grikklandi segja ákvörðun Erdogans vera „beina ögrun við hinn siðmenntaða heim“, sem hafi fært Tyrki aftur sex aldir í tímann. Þá fordæmdi rússneska rétttrúnaðarkirkjan ákvörðunina og sagði hana líta framhjá áhyggjum milljóna kristinna manna. 

UNESCO, menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, hvatti Tyrki fyrr um daginn til þess að sjá sér um hönd og efna til samtals við aðra áður en nokkur ákvörðun yrði tekin. 

mbl.is

Bloggað um fréttina