Öllu stolið steini léttara

Fjöldi fólks kom saman við listasafn í Tókíó aðfaranótt föstudags í þeim tilgangi að stela þaðan listaverkum. Lögreglan var á svæðinu en aðhafðist þó ekkert enda var gjörningurinn löglegur. Listasafnið hafði boðað til sérstakrar sýningar þar sem öll listaverkin voru föl þeim sem gætu stolið þeim. Sýningunni var ætlað að vera tilraun til að breyta sambandi listamanns og listunnenda, sagði Tota Hasegawa skipuleggjandi í samtali við AFP.

Viðburðurinn átti að vera lágstemmdur, en uppátækið spurðist út á samfélagsmiðlum og þegar listasýningin var opnuð á miðnætti aðfaranótt föstudags voru um 200 „þjófar“ mættir til að láta greipar sópa. Raunar var aðsóknin svo mikil að þjófunum var hleypt að svæðinu um hálftíma fyrir miðnætti og áttu þeir sem létu sjá sig skömmu fyrir miðnætti lítinn séns á að komast í feitt.

Þjófarnir fengu að fara inn í bygginguna, en þurftu sjálfir að ná listaverkunum og koma þeim á brott hver í kapp við annan.

Yusuke Hasada, 26 ára gamall, var einn þeirra sem stóð uppi sem sigurvegari en honum tókst að klófesta 10.000 jena (13.000 kr.) innrammaðan seðil sem var hluti af sýningunni Peningurinn minn eftir Gabin Ito. Hann var kominn klukkutíma fyrir miðnætti. Hashada segist ætla að hengja gripinn upp heima hjá sér.

Ekki hafa þó allir þjófarnir fyrirætlanir, en mörg listaverkin hafa þegar tekið að dúkka upp á heimasíðum uppboðshúsa og eru þau föl fyrir allt að 100.000 jen (130.000 kr.). 

Lögreglan lokar dyrum safnsins eftir að öll listaverkin höfðu verið …
Lögreglan lokar dyrum safnsins eftir að öll listaverkin höfðu verið numin á brott. AFP
mbl.is