Franskur barnaníðingur lést í varðhaldi

François Camille Abello er talinn hafa níðst á yfir 300 …
François Camille Abello er talinn hafa níðst á yfir 300 börnum. AFP

Franskur ríkisborgari, sem var í haldi í Indónesíu, grunaður um að hafa beitt hundruð barna kynferðisofbeldi er látinn. Talið er að um sjálfsvíg hafi verið að ræða.

François Camille Abello, 65 ára, fannst meðvitundarlaus í klefa sínum í fangelsi í Jakarta á fimmtudagskvöldið að sögn talsmanns lögreglunnar, Yusri Yunus. Eftir að hafa legið á gjörgæsludeild í þrjá sólarhringa var hann lýstur látinn að sögn Yunus.

Samkvæmt upplýsingum frá sjúkrahúsinu var Abello með áverka á hálsi sem komu í veg fyrir súrefnisflæði. Abello var handtekinn á hóteli í Jakarta í síðasta mánuði þar sem hann var með tvær barnungar stúlkur hjá sér.

Lögreglan lét hann koma fram á blaðamannafundi í kjölfarið þar sem hann var í járnum, í appelsínugulum fangabúning og með andlitsgrímu. Að sögn lögreglu fundust myndskeið í tölvu Abello þar sem hann sést níðast á rúmlega 300 börnum á aldrinum 10 til 17 ára. Hann á að hafa tælt börnin til sín með því að bjóða þeim fyrirsætustörf. Þau sem neituðu að taka þátt í kynlífi með honum voru beitt líkamlegu ofbeldi. 

Abello átti yfir höfði sér lífstíðarfangelsi, að vera vanaður og jafnvel aftöku ef hann hefði verið dæmdur sekur. 

mbl.is