Spánverjum og Japönum fækki um helming

Myndin er tekin í mótmælum á Spáni þar sem starfsmenn …
Myndin er tekin í mótmælum á Spáni þar sem starfsmenn Nissan-verksmiðju báru Dali-grímu og stældu þannig söguhetjur sjónvarpsþáttaraðarinnar Casa del Papel. AFP

Heimsbyggðin er illa undir það búin að takast á við snarminnkandi fæðingartíðni sem hafa mun „ótrúlegar“ afleiðingar á samfélagið. Þetta er niðurstaða rannsóknar vísindamanna við Háskólann í Washington.

Minnkandi fæðingartíðni mun hafa þær afleiðingar að nær allar þjóðir heims eldast og íbúafjöldinn mun dragast saman. Þá er viðbúið að 23 mannfjöldi 23 þjóða, þeirra á meðal Spánverja og Japana, muni helmingast fyrir árið 2100.

Árið 1950 eignaðist hver kona í heiminum að meðaltali 4,7 börn, en árið 2017 var sú tala komin niður í 2,4 börn og er því spáð að fæðingartíðnin verði um 1,7 börn á konu árið 2100. Fari hlutfallið undir um það bil 2,1 barn á konu dregst íbúafjöldi saman. Því er búist við að mannfjöldi á jörðu nái hámarki um 2064 og standi þá í 9,7 milljörðum, áður en hann lækkar niður í 8,8 milljarða undir lok aldar.

Vandamálið felst í breyttri aldurssamsetningu

Christoper Murray, prófessor við Háskólann í Washington, segir í samtali við BBC að fólksfækkun sé ekki vandamál út af fyrir sig. Vandamálið felist í „öfugum aldurspýramída“ sem fylgi því að eldri kynslóðir verði mun fjölmennari en þær yngri.

Þannig gerir spáin ráð fyrir að börnum undir fimm ára aldri fækki frá 681 milljón árið 2017 niður í 401 milljón árið 2100. Á sama tíma muni fólki yfir áttræðu fjölga úr 141 milljón árið 2017 í 866 milljónir árið 2100.

„Þetta mun valda gríðarlegum samfélagsbreytingum. Hver borgar skatta í þessum gamla heimi? Hver borgar heilbrigðisþjónustu fyrir eldri borgara og lítur eftir þeim? Mun fólk enn geta farið á eftirlaun? Við þurfum mjúka lendingu,“ segir hann. 

Í mörgum ríkjum hafa innflytjendur vegið upp á móti áhrifum fólksfækkunar, en að mati Murray verður sá kostur ekki lengur í boði þegar öll ríki heims glíma við fólksfækkun. „Við munum fara úr ástandi þar sem möguleiki er á að opna landamærin yfir í hreina samkeppni um innflytjendur þar sem það verða ekki nógu margir.“

mbl.is