Barist á tvennum vígstöðvum

Frá Magaluf-ströndinni á Mallorka.
Frá Magaluf-ströndinni á Mallorka. AFP

Spænsk yfirvöld berjast nú á tvennum vígstöðvum gegn kórónuveirunni  að koma í veg fyrir aðra smitbylgju og bjarga ferðaiðnaðinum. Nú þurfa Bretar sem ferðast til Spánar að fara í tveggja vikna sóttkví við heimkomuna líkt og Norðmenn. 

AFP

Á hverju ári ferðast um 18 milljónir Breta til Spánar sem var fjórðungur allra komufarþega til landsins í fyrra. Nýjum smitum hefur fjölgað á Spáni undanfarna daga og um helgina var Norðmönnum sem þaðan komu gert að fara í tveggja vikna sóttkví. Bretar settu á miðnætti sömu reglu.

Samkvæmt upplýsingum frá Sótt­varna­stofn­un­ Evr­ópu­sam­bands­ins (European Centre for Disease Prevention and Control  ECDC) eru 39,4 virk smit á hverja 100 þúsund íbúa. Í Bretlandi og Frakklandi er hlutfallið 14,6 og á Íslandi tæplega 2. 

AFP

Í flestum héruðum Spánar hefur kórónuveirufaraldurinn ekki tekið sig upp aftur eftir erfitt vor fyrir utan Katalóníu og Aragón. Yfirvöld í Katalóníu hafa fyrirskipað fjórum milljónum íbúa að halda sig heima, þar á meðal íbúum Barcelona. Forseti héraðsstjórnar Katalóníu, Quim Torra, sagði í dag að mögulega yrðu sóttvarnaaðgerðir hertar enn frekar ef ekki dregur úr fjölgun smita næstu tíu daga. 

AFP

Ferðaskrifstofan TUI hefur aflýst öllum ferðum frá Bretlandi til Spánar frá og með deginum í dag til 9. ágúst. Er þetta gert í kjölfar ákvörðunar breskra yfirvalda að tilkynna með stuttum fyrirvara um sóttkví að lokinni Spánardvöl. Flugfélög hafa aftur á móti ekki aflýst flugferðum milli landanna.

Mjög heitt er á Spáni og hefur hitinn víða farið …
Mjög heitt er á Spáni og hefur hitinn víða farið yfir 40 stig undanfarna daga. AFP

Samkvæmt upplýsingum frá TUI gildir þetta ekki um Baleareyjar né Kanaríeyjar en á eyjaklösunum tveimur eru Covid-19-smit mun færri en á meginlandinu. 

Á föstudag voru staðfest smit orðin tæplega 273 þúsund talsins og rúmlega 28.400 voru látnir af völdum Covid-19 á Spáni. 

Bresku flugfélögin eru ósátt við ákvörðun breskra yfirvalda enda tekin með skömmum fyrirvara. Í tilkynningu frá British Airways segir að þetta sé enn eitt höggið fyrir ferðaþjónustuna og muni hafa alvarleg áhrif á flugrekstur sem ekki megi við frekari skakkaföllum. 

AFP

EasyJet ætlar ekki að gera neinar breytingar á áætlunum félagsins næstu daga en ef farþegar hætti við geti þeir breytt farmiðum sínum án kostnaðar eða fengið ferðaávísun sem er jafngild virði bókunar þeirra.

Ákvörðunin skilaði sér einnig inn í bresku kauphöllina þar sem flugfélög lækkuðu talsvert í verði í morgun. IAG, móðurfélag British Airways, lækkaði um 9%, EasyJet um 10,6% og TUI um rúm 12%. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert