56 Norðmenn með smit frá útlöndum

Frístundabátar á Óslóarfirðinum 25. júlí, hluti höfuðborgarinnar í baksýn. Af …
Frístundabátar á Óslóarfirðinum 25. júlí, hluti höfuðborgarinnar í baksýn. Af þeim 114 nýju kórónuveirutilfellum með þekkta smitstaðsetningu sem greinst hafa í Noregi síðastliðnar tvær vikur má rekja upphaf 56 smita, nánast helmings, til svæða utan Noregs. AFP

Af þeim 114 nýju kórónuveirutilfellum með þekkta smitstaðsetningu sem greinst hafa í Noregi síðastliðnar tvær vikur má rekja upphaf 56 smita, nánast helmings, til svæða utan Noregs. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Lýðheilsustofnunar Noregs um gang mála í kórónuveirufaraldrinum síðustu tvær vikur þótt skýrslan fjalli einkum um síðustu viku.

Alls greindust 147 smit í Noregi síðustu tvær vikurnar og er uppruni 33 þeirra óþekktur. Af þeim 56 smitum, sem rakin eru til útlanda, eru níu rakin til „grænna landa“, það er landa sem norsk stjórnvöld hafa ákveðið að þegnar landsins megi ferðast til án þess að sæta tíu daga sóttkví við heimkomu til Noregs.

Milli þessara tveggja vikna fjölgaði smitum frá útlöndum úr 44 prósentum í 51 prósent. Að frátöldum téðum níu smitum frá grænmerktum löndum af 56 heildarsmitum með erlendan uppruna komu 13 frá Kósovó, 12 frá Serbíu, sex frá Svíþjóð og 16 frá 11 öðrum „rauðum löndum“. Smitin níu frá „grænu löndunum“ voru frá Danmörku, Póllandi og Þýskalandi.

Alls 9.128 sýkst frá upphafi

Meðalaldur smitaðra í síðustu viku einni er 33 ár, kynjaskipting 43 prósent konur, 57 prósent karlmenn. Þetta er nokkru lægri meðalaldur en yfir allt faraldursskeiðið í Noregi sem er 45 ár og kynjahlutfall jafnt.

Skýrsluhöfundar gefa einnig yfirlit yfir faraldurinn frá því fyrsta tilfelli kom fram í Noregi 26. febrúar. Síðan hafa alls 9.128 manns greinst sýktir af kórónuveiru sem gerir 170 tilfelli á hverja 100.000 íbúa landsins yfir allt tímabilið. Fram til loka síðustu viku höfðu 429.235 manns gengist undir kórónuveirupróf í Noregi sem eru átta prósent þjóðarinnar.

Af þessum fjölda gengust 22.791 undir próf í síðustu viku og 24.050 vikuna þar áður. Milli þessara vikna hækkaði hlutfall jákvæðra prófa úr 0,2 prósentum í 0,4. Í síðustu viku greindust flestir, eða 0,9 prósent, jákvæðir í fylkinu Viken sem varð til 1. janúar við sameiningu þriggja nágrannafylkja Óslóar; Akershus, Buskerud og Østfold. Vikuna þar á undan voru flest jákvæð sýni í höfuðborginni sjálfri, 0,7 prósent.

4,7 dauðsföll á hverja 100.000

Alls hafa 1.187 kórónuveirusjúklingar verið lagðir inn á sjúkrahús í Noregi frá því í febrúar og var kórónuveirusýking höfuðástæða innlagnar 975 þeirra eða 82 prósenta. Lýðheilsustofnun Noregs hafa fram að þessu borist tilkynningar um 255 dauðsföll af völdum veirunnar sem gerir 4,7 á hverja 100.000 íbúa Noregs. Af þessum fjölda var 221 fæddur í Noregi, 87 prósent, en hinir 34 í alls 16 öðrum löndum. Meðalaldur hinna látnu er 82 ár.

Skýrsluhöfundar segja fjölgun nýrra tilfella síðustu vikur greinilega en heildartala smita í Noregi teljist þó enn sem komið er lág. Greinilegur kippur hafi orðið í smittölfræðinni eftir síðustu tilslakanir í sóttkvíarmálum gagnvart Norðmönnum á ferðalögum, sem gildi tóku 15. júlí, og sé full þörf á að gefa þróuninni í smitum frá öðrum löndum óskoraða athygli á næstunni.

Dauðsföllum hafi þó fækkað jafnt og þétt frá því í páskavikunni, 6. – 12. apríl, og síðustu mánuði hafi dánartíðni í landinu náð því stigi sem eðlilegt teljist.

NRK

VG

Skýrsla Lýðheilsustofnunar Noregs (FHI)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert