Sagður hafa ætlað að kúga Andrés prins

Andrés Bretaprins.
Andrés Bretaprins. AFP

Barnaníðingurinn Jeffrey Epstein er sagður hafa ætlað að safna upplýsingum um Andrés Bretaprins með því að þvinga stúlku undir lögaldri til að stunda kynlíf með honum.

Þetta kemur fram í nýbirtum dómskjölum sem tengjast máli Ghislaine Maxwell, fyrrverandi kærustu Epstein, sem er sökuð um að hafa aðstoðað hann við mansalið sem hann var ákærður fyrir. 

Epstein svipti sig lífi í fangaklefa í fyrra.

Jeffrey Epstein og Ghislaine Maxwell.
Jeffrey Epstein og Ghislaine Maxwell. AFP

Í skjölunum, sem voru birt í New York í gær, kemur fram að Andrés hafi hitt stúlkuna á Jómfrúaeyjum. Epstein hafi beðið stúlkuna, Virginiu Roberts Giuffre, að „veita prinsinum allt sem hann bað um og segja honum frá því kynferðislega ofbeldi sem hún hafi orðið fyrir“, að því er The Guardian greinir frá. 

Gifuffre segist hafa verið þvinguð til kynmaka með prinsinum en hann neitaði því í frægu viðtali.

Epstein er sagður hafa stundað mansal með því að láta stúlkur í hendur valdamikils fólks til að geta tengst því betur, meðal annars í gegnum viðskipti eða stjórnmál. Auk þess er hann sagður hafa ætlað að nota upplýsingar um fólkið til að kúga það ef á þyrfti að halda.

Mótmælandi fyrir utan dómshúsið í New York.
Mótmælandi fyrir utan dómshúsið í New York. AFP
mbl.is