Gríman staðalbúnaður skólabarna

Skólaárið hófst í Þýskalandi í dag og auk þess hefðbundna, það er bóka, pennaveskis og nestisbox, bættist gríman í staðalbúnað skólabarna þar í landi. Ríkisstjórn Þýskalands er afar ósátt við brot á sóttvarnareglum í mótmælum helgarinnar.

Kennsla hófst í Mecklenborg-Vorpommern í dag en það er fyrsta þýska sambandsríkið til þess að hefja kennslu að nýju eftir sumarleyfi og kórónuveirufaraldurinn. Á sama tíma  hefur nýjum smitum fjölgað mjög. 

Menntamálaráðherrar allra 16 sambandsríkjanna samþykktu að skólarnir myndu hefja starfsemi að fullu að loknu sumarleyfi en síðustu vikurnar fyrir leyfið var kennsla takmörkuð við nokkrar kennslustundir á viku vegna COVID-19.

Skólar hefja starfsemi að nýju í Hamborg síðar í vikunni og í Berlín í næstu viku á sama tíma og ný smit eru yfir 500 á dag. En skólayfirvöld segja að börn geti ekki misst meira úr skóla, heldur þurfi að skipta skólahúsnæðinu upp í smærri einingar en áður þannig að ef einhver greinist með COVID-19 sé það aðeins einn bekkur sem þarf að fara í sóttkví. 

Skylda er að bera grímu á göngum skólanna og skólastofurnar eru sótthreinsaðar reglulega. Nemendur eru einnig hvattir til þess að þvo sér um hendur reglulega og gæta fjarlægðar. 

Tugþúsundir hafa tekið þátt í mótmælum í Berlín um helgina þar sem samkomubanni er mótmælt. Þýska ríkisstjórnin gagnrýndi í dag mótmælin harðlega enda séu þau óviðunandi brot á sóttvarnareglum sem gilda í landinu.

Talskona Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, Ulrike Demmer, segir að mótmælendur hafi ekki borið andlitsgrímu og fjarlægðarmörk hafi ekki verið virt. Með þessu hafi þeir fyrirgert rétti sínum til að mótmæla. Á sama tíma og rétturinn til að mótmæla sé mikilvægur er sú mynd sem blasti við um helgina óviðunandi segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert