Stúlkan var á gangi með hundinn

Sveit­ar­fé­lagið hef­ur af­markað minn­ing­ar­reit við bens­ín­stöðina þar sem leggja má …
Sveit­ar­fé­lagið hef­ur af­markað minn­ing­ar­reit við bens­ín­stöðina þar sem leggja má blóm til minn­ing­ar um stúlk­una sem lést. AFP

Tólf ára gamla stúlkan sem skotin var til bana við bensínstöð í sveitarfélaginu Botkyrka sunnan við Stokkhólm aðfaranótt sunnudags var á gangi með hundinn þegar hún var skotin með skammbyssu að því er fram kemur í frétt SVT um málið.

Lögreglunni var gert viðvart um hljóð sem líktist byssuskoti kl. hálffjögur að nóttu og hefur sænska lögreglan kallað nokkra einstaklinga inn til yfirheyrslu að sögn yfirlögregluþjónsins Palle Nilsson og hefur einnig fundið fótspor á vettvangi.

Samkvæmt SVT leitar lögreglan einkum að hvítum bíl og brýnir fyrir fólki að gefa sig fram hafi það einhverjar upplýsingar. Að öðru leyti vildi lögreglan ekki tjá sig frekar um málið.

„Við viljum ekki gefa út of miklar upplýsingar á þessu snemmstigi rannsóknarinnar þar sem það gæti skaðað hana,“ var haft eftir Nilsson sem er yfirlögregluþjónn í þessu umdæmi í Stokkhólmi.

Samkvæmt sænska miðlinum Expressen var stúlkan unga ekki skotmarkið heldur tveir liðsmenn glæpagengis.

„Við viljum ekki tjá okkur um þetta. Almennt séð tengjast svona skotárásir glæpagengjum en við munum ekki taka afstöðu til þess hvort það eigi við í akkúrat þessu máli,“ sagði Nilsson við SVT.

mbl.is