Barn skotið til bana í Svíþjóð

Tólf ára gömul stúlka var skotin til bana við bensínstöð …
Tólf ára gömul stúlka var skotin til bana við bensínstöð og McDonald's-veitingastað í Norsborg, sunnan við Stokkhólm á fjórða tímanum í nótt þegar óþekktir tilræðismenn óku hjá og létu til skarar skríða, að því er lögregla telur gegn tveimur liðsmönnum glæpagengis sem stóðu fyrir utan McDonald's-staðinn en þeir voru að sögn vitna klæddir skotheldum vestum. Skjáskot/Fréttatími SVT

Íbúar Norsborg í sveitarfélaginu Botkyrka, sunnan við Stokkhólm, eru í hreinu áfalli eftir að tólf ára gömul stúlka var skotin til bana við bensínstöð þar í bænum í nótt. Lögreglu barst tilkynning um atburðinn klukkan hálffjögur í nótt að sænskum tíma og komu margir lögreglubílar þegar á vettvang. Var stúlkan flutt með hraði á sjúkrahús en úrskurðuð látin snemma í morgun.

Að sögn vitna sem dagblaðið Aftonbladet hefur rætt við var skotárásin gerð með þeim hætti að bifreið ók fram hjá bensínstöðinni og var nokkrum skotum hleypt af út um glugga hennar. Telur lögregla víst að atlögunni hafi verið beint að tveimur liðsmönnum glæpagengis sem staddir voru fyrir utan McDonald's-veitingastað við hliðina á en að sögn vitna voru þeir klæddir skotheldum vestum.

„Allir eiga að vera öruggir í Botkyrka“

Lögregla lokaði svæðinu kringum bensínstöðina, McDonald's-staðinn og Pizza Hut-stað við hliðina vegna vettvangsrannsóknar og segir Anne Westberg, upplýsingafulltrúi lögreglunnar, að enginn hafi enn sem komið er verið handtekinn vegna árásarinnar.

Carolina Paasikivi, umdæmisstjóri hjá Stokkhólmslögreglunni, segir við Aftonbladet að lögregla skoði nú myndefni eftirlitsmyndavéla á svæðinu sem gætu varpað ljósi á hver eða hverjir voru þar að verki auk þess sem lögregla hefur fundið nokkur skothylki á vettvangi.

Ebba Östlin, bæjarstjóri Botkyrka, sagðist í sjónvarpsfréttatíma sænska ríkisútvarpsins SVT vera slegin harmi og mikilli reiði í garð fólks sem leyfi sér að taka líf annarra. „Allir eiga að vera öruggir í Botkyrka, að því höfum við unnið af kappi, en í dag mistókst okkur,“ sagði bæjarstjórinn við SVT.

Þorir ekki með börnin lengur

Sem fyrr segir eru íbúar Botkyrka í áfalli. „Þetta er hryllilegt. Maður kemur oft hingað með börnin, nú þorir maður það ekki lengur. Þessi kúla gæti hafa hæft hvern sem vera skyldi,“ segir Anod Samir, íbúi í nágrenninu, við Aftonbladet og Michel Rizk, sem einnig býr nálægt, tekur í sama streng:

„Þetta er sorglegt. Manni verður ekki um sel. Ég á sjálfur lítil börn og þess er ekki langt að bíða að þau fari að hlaupa niður á bensínstöð til að kaupa sér eitthvað.“

Sveitarfélagið hefur afmarkað minningarreit við bensínstöðina þar sem leggja má blóm til minningar um stúlkuna sem lést og eins hefur áfallahjálparsími verið opnaður fyrir hvern þann sem á þarf að halda, börn sem fullorðna íbúa Botkyrka.

SVT

Aftonbladet

Expressen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert