Hollywood-leikarar og rithöfundar skrifa opið bréf

Leikkonan Maggie Gyllenhaal.
Leikkonan Maggie Gyllenhaal. AFP

Þó nokkrir kunnir rithöfundar og Hollywood-stjörnur hafa beðið egypsk stjórnvöld um að leysa úr haldi aðgerðasinnann Sanaa Seif og fleiri pólitíska fanga.

Þetta kemur fram í opnu bréfi sem var birt í dag.

„Við skorum á egypsk yfirvöld að sleppa Sanaa úr haldi án tafar...og öllum sem hafa verið fangelsaðir fyrir að nýta sér réttindi sín á friðsamlegan hátt,“ sagði í bréfinu.

Seif, sem er 26 ára, var handtekin fyrir utan skrifstofu embættis saksóknara í landinu og ekið í burtu í ómerktum bíl. Hún var kærð fyrir að „dreifa fölskum fréttum“, „hvetja til hryðjuverka“ og „misnota samfélagsmiðla“, sögðu lögmenn hennar.

Yfir 200 manns skrifuðu undir bréfið, þar á meðal leikararnir Danny Glover, Maggie Gyllenhaal og Thandie Newton og rithöfundarnir Noam Chomsky, Arundhati Roy og Nóbelsverðlaunahafinn J.M. Coetzee.

Samkvæmt egypskum lögum er hægt að láta fólk sitja í gæsluvarðhaldi í allt að tvö ár en yfirvöld framlengja oft á tíðum varðhaldið um óákveðinn tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert