Dr. Fauci og fjölskyldu hótað lífláti

Dr. Anthony Fauci hefur ráðið lífverði til að gæta fjölskyldu …
Dr. Anthony Fauci hefur ráðið lífverði til að gæta fjölskyldu sinnar. AFP

Dr. Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, hefur ráðið lífverði til að gæta fjölskyldu sinnar eftir að honum og fjölskyldu hans byrjuðu að berast líflátshótanir vegna ummæla Fauci um hvernig eigi að takast á við kórónuveirufaraldurinn.

„Að mér og fjölskyldu minni berist líflátshótanir, að dætur mínar séu áreittar svo mikið að ég þurfi að ráða lífverði er hreinlega með ólíkindum. Ég vildi óska þess að þær þyrftu ekki að ganga í gegnum þetta,“ sagði Fauci í viðtali við CNN.

„Ég hefði ekki í mínum villtustu draumum getað ímyndað mér það að það væri til fólk sem er svo á móti grundvallaratriðum í lýðheilsumálum að það hóti þér,“ sagði hann einnig. BBC greinir frá.

Hótanirnar alvarlegri en áður

Fauci, sem er 79 ára gamall, og eiginkona hans eiga þrjár uppkomnar dætur. Hann hefur sagt að honum hafi borist hótanir og haturspóstar þegar hann leiddi baráttuna gegn HIV-faraldrinum á níunda áratug síðustu aldar en að eðli, umfang og alvarleiki þeirra sé töluvert meira í dag.

Ummæli hans hafa undanfarið reglulega stangast á við ummæli Donald Trump Bandaríkjaforseta um kórónuveirufaraldurinn, gagnsemi malaríulyfsins hydroxychloroquine og mikilvægi þess að bera andlitsgrímur svo dæmi séu tekin.

Trump hefur meðal annars endurtíst færslum þar sem kallað er eftir því að Fauci verði sagt upp störfum. Forsetinn hefur sagst eiga í góðu sambandi við Fauci en að hann sé stundum ósammála honum og að hann hafi gert mörg mistök.

mbl.is