Grímuskylda í Danmörku

Mette Frederiksen á blaðamannafundi dagsins.
Mette Frederiksen á blaðamannafundi dagsins. AFP

Grímuskylda tekur gildi í almenningssamgöngum í Danmörku frá og með næsta laugardegi, 22. ágúst. Frá þessu greindi Mette Frederiksen forsætisráðherra á blaðamannafundi í dag.

Mælt hefur verið með grímunotkun í almenningssamgöngum frá því um mánaðamót en það er fyrst nú sem grímuskylda er innleidd í landinu. 

„Við gerum þetta nú þar sem smitum í Danmörku fjölgar á sama tíma og starfsemi í samfélaginu eykst,“ sagði Frederiksen á fundinum. Margir væru nú að snúa aftur til skóla eða vinnu eftir frí og sífellt fjölgaði í lestum og strætisvögnum.

Krafan kann að verða útvíkkuð til annarra þátta samfélagsins, til dæmis matarbúða. „Ef lítil gríma getur verndað okkur gegn mikilli útbreiðslu þá er það augljóst val,“ sagði Frederiksen á fundinum. 

Næturlífið liggur niðri til 31. október

Á fundinum var einnig tilkynnt að ákveðið hefði verið að fresta því að skemmtistaðir geti opnað á ný. Er nú miðað við að það geti gerst 31. október. Dansgólfið er einn af þeim stöðum þar sem sérfræðingar telja smithættuna mesta. 

Skemmtistaðaeigendum er þó velkomið að breyta staðnum tímabundið í bar og hlíta þar með þeim reglum sem þeir þurfa að uppfylla um þessar mundir. Þá er stöðunum heimilt að hafa opið til klukkan tvö að nóttu rétt eins og barir. Afgreiðslutíminn hefur verið til miðnættis hingað til en á fundinum var tilkynnt að framvegis mættu barir vera opnir til klukkan tvö.

Danska ríkisútvarpið um grímunotkun

Danska ríkisútvarpið um næturlíf

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert