Setja þriggja vikna útgöngubann

Netanyahu ávarpaði þjóðina í sjónvarpaðri tilkynningu.
Netanyahu ávarpaði þjóðina í sjónvarpaðri tilkynningu. AFP

Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, tilkynnti í dag að stjórnvöld myndu hefja þriggja vikna útgöngubann í landinu til að sporna við útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

Í sjónvarpaðri tilkynningu sagði Netanyahu að „ríkisstjórnin hafi tekið ákvörðun um strangt útgöngubann sem á að gilda í þrjár vikur, með möguleika á framlengingu“.

Útgöngubannið á að hefjast næsta föstudag, stuttu fyrir Rosh Hashanah-hátíðina sem haldin er hátíðleg í Ísrael og víðar.

Mikil aukning hefur verið á smitum í Ísrael; um 4.000 dagleg smit hafa greinst síðustu daga.

Útgöngubannið tekur gildi stuttu fyrir Rosh Hashanah-hátíðina, sem er gjarnan …
Útgöngubannið tekur gildi stuttu fyrir Rosh Hashanah-hátíðina, sem er gjarnan kölluð nýár gyðinga. AFP

Hátíðahöld verði frábrugðin

Ekki hafa endanleg fyrirmæli verið gefin út í tengslum við útgöngubannið, en tilkynnt hefur verið að ekki fleiri en 10 megi koma saman innandyra og ekki fleiri en 20 utandyra. Talið er að bannið muni hafa mikil áhrif á helgiathafnir og samkundur.

Einstaklingum mun ekki vera heimilt að ferðast meira en 500 metra frá heimili sínu og veitingastöðum verður lokað.

Í ræðu sinni minnti Netanyahu á að hátíðarhöld þar í landi muni verða frábrugðin fyrri árum. „Það er ljóst að við munum ekki geta fagnað í faðmi stórfjölskyldunnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert