Fá sömu niðurstöðu um eitrun

Eiturefnapróf franskra og sænskra stjórnvalda benda einnig til Novichok-eitrunar.
Eiturefnapróf franskra og sænskra stjórnvalda benda einnig til Novichok-eitrunar. AFP

Niðurstöður eiturefnaprófana franskra og sænskra stjórnvalda benda til þess að eitrað hafi verið fyrir rússneska stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní með taugaeitrinu novichok. 

Steffen Seibert, talsmaður Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, staðfesti þetta í morgun, en eiturefnaprófanir þýskra stjórnvalda benda til þess að Navalní hafi orðið fyrir novichokeitrun.

Óskuðu þýsk stjórnvöld eftir sjálfstæðu áliti á niðurstöðum þýskra lækna sem benda til eitrunarinnar en þau bíða enn eftir niðurstöðum rannsókna alþjóðlegu vopnaeftirlitsstofnunarinnar OPCW.

Sagði Seibert í samtali við AFP að rannsóknir þýskra, sænskra og franskra stjórnvalda gæfu rússneskum tilefni til að senda út yfirlýsingu vegna atburðarins. Bætti hann við að þýsk stjórnvöld væru í nánu samstarfi vi evrópska bandamenn sína hvað næstu skref varðar.

Talið er að eitrað hafi verið fyrir Navalní þar sem hann glímdi við snörp veikindi á leið sinni frá Síberíu til Berlínar í ágúst. Hann kom nýlega til meðvitundar en liggur enn á sjúkrahúsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert