Lífvörðurinn skildi byssuna eftir í flugvél

Dominic Raab á blaðamannafundi í Washington þar sem hann var …
Dominic Raab á blaðamannafundi í Washington þar sem hann var til að ræða Brexit. AFP

Lífvörður Dominics Raabs, utanríkisráðherra Bretlands, hefur verið leystur frá störfum eftir að hann skildi byssuna sína eftir í flugvél á Heathrow-flugvelli í London. Ræstingafólk fann byssuna eftir að ráðherrann var farinn frá borði.

Utanríkisráðherrann flaug með vélinni til Bretlands frá Washington í Bandaríkjunum þar sem hann ræddi við stjórnmálamenn um brexit. Byssan, af gerðinni Glock-19, er sögð hafa verið hlaðin þegar hún fannst.

Lífvörðurinn er sagður hafa tekið byssuhulstrið af sér og sett það í sætið sitt áður en hann fylgdi Raab út úr vélinni. BBC greinir frá. 

Scotland Yard er með málið til rannsóknar og er það litið mjög alvarlegum augum.

„Svona nokkuð er ekki algengt,“ sagði fyrrverandi yfirlögregluþjónn í samtali við BBC. Sagði hann álag í starfi geta leitt til mannlegra mistaka.

Ekki er þó langt síðan svipað atvik kom upp þegar lífvörður Davids Camerons, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, skildi byssuna sína eftir inni á salerni flugvélar í flugi frá New York til London. Það gerðist í febrúar og í kjölfarið hófst rannsókn á atvikinu.

mbl.is