Sakaður um njósnir fyrir kínversk stjórnvöld

Maðurinn er sakaður um njósnir fyrir kínversk stjórnvöld. Á myndinni …
Maðurinn er sakaður um njósnir fyrir kínversk stjórnvöld. Á myndinni er Xi Jinping, forseti Kína. AFP

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa ákært lögreglumann í New York-ríki fyrri njósnir. Lögreglumaðurinn er sakaður um að hafa safnað upplýsingum um tíbetska samfélagið í New York-borg fyrir kínversk yfirvöld. 

Lögreglumaðurinn, sem starfaði í Queens-hverfi New York-borgar, tók við fyrirskipunum frá kínverska sendiráðinu í New York samkvæmt ákæru sem gefin var út í gærkvöldi. 

Maðurinn, sem er fæddur í Kína, fékk pólitískt hæli í Bandaríkjunum eftir að hafa haldið því fram að hann hafi verið pyntaður af kínverskum stjórnvöldum vegna tíbetsks uppruna síns. 

Maðurinn, sem er í dag 33 ára, er sakaður um að hafa notað tengsl sín við tíbetska samfélagið í New York til að safna upplýsingum um einstaklinga og gjörðir innan samfélagsins frá árinu 2018. Fram kemur í ákærunni að kínversk yfirvöld hafi borgað manninum tugir þúsunda Bandaríkjadollara fyrir njósnirnar. 

Dermot Shea, lögreglustjóri New York-ríkis, segir manninn hafa „brotið gegn öllum heitum sínum við þetta land. Einu gagnvart Bandaríkjunum, öðru gagnvart bandaríska hernum og því þriðja gagnvart lögreglunni.“

Maðurinn kom fyrir dómara á mánudag og sætir nú gæsluvarðhaldi. 

Þrátt fyrir fullyrðingar mannsins um að hann hafi orðið fyrir pyntingum af hálfu kínverskra stjórnvalda segir í ákærunni að foreldrar mannsins séu báðir flokksmenn í kínverska kommúnistaflokknum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert