Verðlaunafé Nóbelsverðlaunanna hækkar

Nóbelssjóðurinn stendur nú í 4,6 milljörðum sænskra króna, um 71 …
Nóbelssjóðurinn stendur nú í 4,6 milljörðum sænskra króna, um 71 milljarði íslenskra. AFP

Sænska Nóbelsstofnunin hefur tilkynnt að verðlaunafé Nóbelsverðlaunanna verði hækkað úr 9 í 10 milljónir sænskra króna (154 milljónir íslenskra króna). Er ákvörðunin að sögn tekin vegna bættrar stöðu Nóbelssjóðsins.

Verðlaunaféð var lækkað úr 10 milljónum sænskra króna í 8 milljónir árið 2012 þegar sjóðurinn stóð illa en þá var gripið til víðtækra aðgerða til að bæta stöðu hans og var lækkun verðlaunafjárins þeirra á meðal.

Þær aðgerðir hafa skilað árangri. Sjóðurinn stendur nú í 4,6 milljörðum sænskra króna (71 ma. ISK) en stóð í tæpum þremur milljörðum árið 2012. Ávöxtun fjárfestinga sjóðsins hefur á tímabilinu verið um 9%.

Nóbelsverðlaunin eru veitt í nafni Alfred Nobels, sænska vísindamannsins sem auðgaðist verulega á uppfinningu sinni, dýnamíti. Árið 1895 lagði hann meirihluta eigna sinna, 31,5 milljónir sænskra króna til hliðar svo stofna mætti verðlaunasjóðinn.

Verðlaunin eru veitt í sex flokkum, læknisfræði, eðlisfræði, efnafræði, bókmenntum, friði og hagfræði. Verðlaunahafar í ár verða tilkynntir í viku 41, 5.-9. október en verðlaunaathöfnin mun fara fram rafrænt í desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert