Leitað til Tesla-eigenda í manndrápsmáli

Dan Eivind Lid heldur á Kóraninum við upphaf samkomu SIAN-samtakanna …
Dan Eivind Lid heldur á Kóraninum við upphaf samkomu SIAN-samtakanna en komið hefur til harðra átaka á tveimur nýlegum samkomum þeirra og beitti lögregla táragasi í miðbæ Óslóar á samkomu 29. ágúst. Lid fannst myrtur í íbúð sinni í Kristiansand á laugardagsmorgun. Ljósmynd/Twitter-síða SIAN

Lögreglan í Kristiansand í Noregi leitar nú til eigenda Tesla-bifreiða í Suldalen þar í bænum við rannsókn sakamáls sem upp kom á laugardagsmorguninn þegar Dan Eivind Lid, einn innsti koppur í búri SIAN-samtakanna svokölluðu, sem berjast gegn því sem þau kalla íslam-væðingu Noregs, fannst látinn í kjallaraíbúð sinni í fjölbýlishúsi í hverfinu.

Þrátt fyrir fjölda myndavéla utan á húsinu, inni í því og á nærliggjandi byggingum virðist lítið hafa komið út úr rannsóknum á myndefni þaðan enn sem komið er og eru eigendur Tesla-bifreiða, sem búnar eru sívökulu öryggis- og myndavélakerfi, því hvattir til að kanna hvort bifreiðar þeirra búi yfir myndefni af mannaferðum eftir klukkan 19 á föstudag.

Snörp átök á samkomum SIAN

Til snarpra átaka hefur komið á tveimur nýlegum samkomum SIAN (Stopp islamiseringen av Norge, Stöðvum íslam-væðingu Noregs) og beitti lögreglan í Ósló CS-gasi, eða táragasi, á samkomu 29. ágúst þar sem Fanny Bråten, ræðumaður samtakanna, reif blaðsíður úr Kóraninum og hrækti á þær. Ætlaði þá allt um koll að keyra sem lyktaði með að hópur fólks réðst að brynvörðum óeirðabifreiðum lögreglu og grýtti að þeim öllu lauslegu. Jafnvel húsgögnum af veitingastöðum.

Telur lögregla öruggt að Lid hafi verið myrtur en lík hans hafði mikla áverka á höfði auk þess sem merki voru um átök í íbúð hans. Renna bráðabirgðaniðurstöður krufningar stoðum undir þetta. Auk norsku rannsóknarlögreglunnar Kripos kemur öryggislögreglan PST einnig að málinu vegna aðildar og stöðu Lid í SIAN.

Þrátt fyrir að um töluverð átök virðist hafa verið að ræða tók enginn þeirra nágranna, sem lögregla og norskir fjölmiðlar hafa rætt við, eftir mannaferðum né nokkru óvenjulegu tímabilið frá klukkan 19 á föstudaginn til 13 á laugardag, fyrir utan að það var reyndar einn nágrannanna sem fann Lid látinn.

Ýmist í ökkla eða eyra um gagnsemi Tesla

Morten Formo, lögmaður lögreglunnar í Kristiansand, segir lögreglu nú liggja yfir öllu myndefni öryggismyndavéla fjölbýlishúsanna auk þess að fara yfir rafrænar upplýsingar vegtollahliða í nágrenninu.

Kveðst Formo nú gjarnan vilja heyra frá Tesla eigendum í Suldalen en „sentry mode“-kerfið, sem Tesla-verksmiðjurnar hleyptu af stokkunum á síðasta ári, gerir það kleift að taka myndskeið af öllu nánasta umhverfi bifreiðarinnar viðstöðulaust og kveður svo rammt að þessu að forsvarsmenn Ørland-herflugstöðvarinnar í Þrændalögum gáfu það út í fyrra að Tesla væri ógn við þjóðaröryggi og vildu láta eigendur slíkra bifreiða í starfsliði flugstöðvarinnar leggja á sér bílastæði langt frá flugstöðinni, heimavelli nýju F35A-orrustuþotna norska flughersins.

NRK

NRKII

VG

TV2

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert