Svipt djamminu í fyrsta sinn frá 1949

Lok lok og lás.
Lok lok og lás. AFP

Tímamót urðu í Berlín um helgina þegar nýjar tímabundnar næturlífsreglur tóku gildi í skugga ískyggilegrar útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

Veitingastaðir, barir og klúbbar þurfa hér með að hafa lokað frá ellefu á kvöldin til sex á morgnana, undantekningalaust. Og fyrir smáverslanir sem hingað til hafa verið opnar allan sólarhringinn gildir það að klukkan ellefu þarf að loka áfengisdeildinni.

Aðrar eins hömlur hafa ekki gilt um næturlífið í þessari alræmdustu næturlífsborg Evrópu frá árinu 1949. Þær hafa það í för með sér að verið er að slökkva ljósin sums staðar þar sem þau hafa ekki slokknað í áratugi.

Deyja ekki ráðalaus

Á SPIEGEL.DE má lesa frásögn blaðamanns sem ferðaðist um hverfi unga fólksins í Neukölln og Kreuzberg aðfaranótt laugardags, eftir að reglurnar tóku gildi.

Hópar mynduðust hér og hvar við svonefnd Späti, sem eru smáverslanir innflytjenda sem eru opnar allan sólarhringinn. Sumar þessara verslana eru rótgrónar í hverfunum, selja bjór og aðrar nauðsynjavörur allt árið um kring, en þurfa nú að hætta því klukkan ellefu.

Af málflutningi viðmælenda Spiegel á vettvangi næturlífsins að dæma myndu reglurnar líklega ekki koma endanlega í veg fyrir hópamyndun að næturlagi, þó að vissulega settu þær slíku skorður. Flestir stærri klúbbar í Berlín hafa haft lokað frá því í upphafi faraldursins en barir og minni staðir hafa getað haft opið hingað til. Fyrr má rota en dauðrota.

Staðan í Neukölln verri en á Íslandi

Þessar ráðstafanir yfirvalda eru ekki úr lausu lofti gripnar, heldur eru þær örþrifaráð. Kórónuveiran er í vexti í Þýskalandi og formaður farsóttastofnunarinnar þar talaði um það í síðustu viku að hann óttaðist stjórnlausa útbreiðslu faraldursins. 

Staðan er einkar viðsjárverð einmitt í sjálfri Berlín, þar sem nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa síðustu sjö daga fór yfir 50 fyrir helgi. Það er öllu skárra ástand en hér á Íslandi, þar sem sama tala stendur í 226, en það er fyrir síðustu fjórtán daga.

Ástandið er þó misgott eftir hverfum: Í Neukölln, þar sem dansinn dunar ólöglegur á öðru hverju götuhorni, mælist nýgengi smita 143 á hverja 100.000 íbúa síðustu sjö daga. 

Fréttin var uppfærð.

mbl.is