Ritstjóri rekinn fyrir lygar

Steve Scully var rekinn frá C-SPAN í gær fyrir að …
Steve Scully var rekinn frá C-SPAN í gær fyrir að hafa logið að Twitter aðgangur hans hafi verið hakkaður. Wikipedia/Kevin Rutherford

Bandaríska sjónvarpsstöðin C-SPAN hefur rekið stjórnmálaritstjóra stöðvarinnar eftir að hann viðurkenndi að hafa logið til um að aðgangur hans á Twitter hefði orðið fyrir tölvuárás.

Steve Scully, sem átti að stýra sjónvarpskappræðum milli forsetaframbjóðendanna í þessari viku, hafði sett inn færslu á Twitter sem vakti athygli en í kjölfarið hélt Scully því síðan fram að aðgangur hans hefði verið hakkaður.

Í yfirlýsingu sem Scully sendi frá sér í gærkvöldi biður hann starfssystkini sín afsökunar á að hafa logið. Hætt var við kappræðurnar, sem áttu að fara fram í gærkvöldi, í síðustu viku.

Í síðustu viku gagnrýndi Trump Scully og kallaði hann „Never Trumper" og endurvakti þar stimpil sem settur var á þá repúblikana sem neituðu að kjósa Trump í forsetakosningunum fyrir fjórum árum.

Scully svaraði með því að tengja Anthony Scaramucci, fyrrverandi samskiptastjóra Hvíta hússins og nú harðan gagnrýnanda Trumps, við færsluna: „@Scaramucci ætti ég að svara Trump?“

Í yfirlýsingu Scullys frá því í gær segir að hann hafi sent tístið eftir að hafa látið endalausa gagnrýni í sinn garð, þar á meðal frá Trump, skaprauna sér. 

Frétt BBC

Hann hafi séð það morguninn eftir að hafa birt færsluna á twitter að tístið hefði sett af stað nýjar deilur og því logið að aðgangur hans hafi verið hakkaður. 

Skömmu eftir að tilkynnt var að Scully hefði verið rekinn frá sjónvarpsstöðinni svaraði Trump fréttunum með tísti um eigið góða innsæi. „Ég hafði rétt fyrir mér enn einu sinni! Steve Scully var að viðurkenna að hafa logið um að aðgangur hans á Twitter hefði verið hakkaður,“ skrifaði Trump á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert