Ardern heldur velli á Nýja-Sjálandi

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern.
Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern. AFP

Fyrstu tölur í þingkosningum á Nýja-Sjálandi benda til þess að forsætisráðherrann Jacinda Ardern og Verkamannaflokkurinn hafi unnið öruggan sigur. Kjörstöðum var lokað klukkan sex í morgun að íslenskum tíma. 

Ardern hefur farið fyrir meirihlutastjórn Verkamannaflokks og mið-hægri flokks síðustu þrjú árin og miðað við fyrstu tölur er ekki ólíklegt að hún sitji áfram við stjórnvölinn. Þegar búið var að telja 10 prósent atkvæða var útlit fyrir að flokkur hennar fengi 65 af 120 þingsætum og gæti hún því myndað ríkisstjórn án annarra flokka.

Arden hefur notið mikilla vinsælda síðastliðin ár á Nýja-Sjálandi en vinsældir hennar jukust mjög í kjölfar hryðjuverkaárásar ástralsks rasista og hægri öfgamanns á tvær moskur í Christchurch í mars árið 2019. 

Vinsældir hennar jukust til muna í heimsfaraldrinum en Ardern hefur þótt takast einstaklega vel til í baráttunni við veiruna skæðu. 

Met í kjörsókn utan kjörfundar

Kosningarnar áttu upphafleg að fara fram um miðjan september en vegna hópsmits í Auckland var ákveðið að fresta kosningunum fram í október. Meirihluti kjósenda kaus utanfundar eða 1,9 milljónir af 3,5 milljónum sem eru á kjörskrá. Aldrei hafa fleiri kosið utan kjörfundar á Nýja-Sjálandi áður. 

Samhliða þingkosningunum fer einnig fram þjóðaratkvæðagreiðsla um tvö málefni, dánaraðstoð og lögleiðingu kannabis. Kosningin um dánaraðstoð er bindandi, það er, ef yfir helmingur er hlynntur því að lögleiða dánaraðstoð munu lögin End og Life Choice Act 2019 taka gildi. 

Kosningin um lögleiðingu kannabis er hins vegar ekki bindandi og verða lögin ekki sjálfkrafa tekin upp ef meirihluti kýs með lögleiðingunni. Verður það í höndum nýrrar ríkisstjórnar að ákveða hvort málið verði að frumvarpi fyrir þinginu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert