„Við höfum enn tíma“

Jean Castex, forsætisráðherra Frakklands.
Jean Castex, forsætisráðherra Frakklands. AFP

Yfirvöld í Frakklandi tilkynntu í dag að útgöngubann sem nú er í gildi verði víkkað út til fleiri héraða í landinu. Rúmlega 40.000 tilfelli kórónuveirunnar greindust í Frakklandi í dag.  

Útgöngubannið er í gildi frá 21 til 6 á morgnanna og tekur gildi á miðnætti á föstudag. Um 46 milljónir íbúa heyra undir reglurnar.  

„Komandi vikur verða erfiðar og fjöldi látinna mun halda áfram að hækka“ sagði Jean Castex, forsætisráðherra Frakklands, á blaðamannafundi í dag. 162 hafa látist af völdum veirunnar í landinu síðasta sólarhringinn. 

„Takist okkur ekki að stöðva faraldurinn stöndum við frammi fyrir skelfilegu ástandi sem mun kalla á enn harðari reglur. Við höfum enn tíma til að koma í veg fyrir það, en ekki mikinn“ sagði Castex. 

Útgöngubann var fyrst sett á fyrir tæpri viku í París, Lyon, Lille og fleiri borgum. Útgöngubannið verður nú víkkað út til 38 nýrra svæða.  

Eigendur veitingahúsa, sem margir standa fyrir í gríðarlega erfiðum rekstri, hafa gagnrýnt útgöngubannið, en Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði í dag að aðgerðirnar væru nauðsynlegar til að takmarka álag á sjúkrahúsum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert