Metfjöldi smita í Danmörku

Frederiksen hefur boðað til blaðamannafundar vegna metfjölda smita í Danmörku.
Frederiksen hefur boðað til blaðamannafundar vegna metfjölda smita í Danmörku. AFP

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur boðað til blaðamannafundar í kvöld vegna metfjölda nýrra kórónuveirusmita í landinu. 859 ný tilfelli voru staðfest síðasta sólarhring, og hafa fleiri ekki greinst á einum sólarhring í Danmörku síðan faraldurinn hófst þar í landi.

Metfjöldi nýsmita var síðast sleginn í gær þegar smit voru 723 á einum sólarhring, en fram að því hafði verið útlit fyrir að síðari bylgja faraldursins í Danmörku væri á niðurleið.

Frederiksen hefur tilkynnt að á fundinum muni hún tilkynna hertar takmarkanir sem taka gildi á mánudag. Í færslu á samfélagsmiðlum biður Frederiksen landa sína að horfa til þeirra takmarkana sem í gildi eru víða í Evrópu, svo sem á Írlandi þar sem fólk má ekki fara lengra en fimm kílómetra frá heimili sínu, Frakkland og Belgíu þar sem útgöngubann er á næturna, og Tékklandi þar sem skólum hefur verið lokað og fólk beðið að yfirgefa ekki heimili sitt erindislaust.

Samfélaginu haldið gangandi á kostnað félagslífsins

Ritar Frederiksen að þær aðgerðir sem taka gildi á mánudag verði til þess fallnar að ekki þurfi að grípa til eins harðra aðgerða og taldar hafa verið upp, og að það hafi sýnt sig í vor að mikilvægt sé að bregðast hratt og örugglega við. Markmiðið verði að halda samfélaginu gangandi á kostnað félagslífs.

Samkvæmt heimildum TV2 hefur Frederiksen jafnframt boðað fulltrúa allra flokka á danska þinginu til fundar við sig áður en blaðamannafundurinn hefst kl. 18:30 að staðartíma.

Núverandi takmarkanir í Danmörku kveða m.a. á um 50 manna samkomutakmarkanir, grímunotkun á börum og veitingahúsum á meðan staðið er, og að veitingastöðum skuli loka klukkan 22.

Smit eru flest í Kaupmannahöfn, en með tilliti til íbúafjölda fer smitum hvað hraðast fjölgandi í Árósum, þá sérstaklega meðal barna og ungs fólks á aldrinum 10 til 29 ára.

Frá því að faraldurinn hófst í Danmörku hafa 38.622 smitast af kórónuveirunni og 697 látist, þar af þrír síðasta sólarhring. 

 

 

DR

TV2

mbl.is